Skoðun

Knatt­spyrna kvenna í hálfa öld – þakkir til Eggerts Magnús­sonar

Ingibjörg Hinriksdóttir skrifar

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum sem fylgist hafa með íþróttum að úrslitakeppni EM kvenna hefst miðvikudaginn 2. júlí. Ísland leikur fyrsta leikinn í mótinu gegn Finnum og hjá mörgum er spennan orðin ansi mikil. Upptakturinn fyrir mótið hefur verið frábær hjá íslenskum fjölmiðlum, sjónvarpsseríur, upphitunarþættir, hlaðvörp, bókaútgáfa og stanslausar auglýsingar sem tengjast EM hafa dunið á okkur á veraldarvefnum og víðar. Fyrir þetta vil ég þakka, þessi umfjöllun og athygli er ekki sjálfgefin. Það hefur komið glöggt fram í þáttunum Systraslagur, sem sýndir voru á RÚV, að leið knattspyrnu kvenna á Íslandi verið ströng þó hún sé ekki sérlega löng.

Ástæða þess að ég sest við lyklaborðið er að hluta til það að A-landsliðið okkar er enn á ný að stíga á stóra sviðið í úrslitakeppni EM en einnig að það á að þakka þeim sem þakka ber. Allt frá upphafi hef ég fylgst mjög vel með leikjum kvennaboltanum. Ég tel mig þekkja ansi vel söguna sem lýst er í þáttum RÚV um Systraslag. Það er ekki hægt að gera allt og segja frá öllum en einn er sá aðili sem ég tel þó að hafi ekki fengið nægilega athygli og viðurkenningu sem hann á sannarlega skilda. Það er fyrrverandi formaður KSÍ, Eggert Magnússon.

Á þeim árum sem knattspyrnukonur voru að berjast fyrir því að fá stærri sess innan félaganna og KSÍ var Eggert formaður knattspyrnudeildar Vals. Þegar hann tekur síðan við sem formaður KSÍ árið 1989, byrjaði hann á því að taka fjármál sambandsins í gegn og tóku þau stakkaskiptum undir hans stjórn. Smá saman færði hann áherslu og kastljós KSÍ meira og meira í átt að knattspyrnu kvenna. Sagði Eggert gjarnan í ræðu og riti að vaxtarbroddur í íslensku íþróttalífi væri knattspyrna kvenna.

Undir hans stjórn komust málefni kvennalandsliðsins loksins í fastar skorður. Hann fékk vissulega mikið og gott aðhald í gegnum Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna (HKK) og á tíðum ansi öfluga gagnrýni á starfshætti innan knattspyrnusambandsins. Slíku tók Eggert jafnan með miklu jafnaðargeði enda taldi hann að deilur og ósætti væri hreyfiafl framfara. „Ef við tökumst ekki á þá hreyfumst við ekki úr stað,“ sagði hann gjarnan.

Mig langar því, við upphaf úrslitakeppi EM 2025, að færa Eggerti Magnússyni, fyrrverandi formanni KSÍ kærar þakkir fyrir hans framlag til knattspyrnu kvenna á Íslandi. Það hefur verið vanmetið hingað til og verður sennilega áfram í sögulegu samhengi. Í mínum huga er það hins vegar ómetanlegt.

Takk Eggert.

Höfundur er fyrrverandi stjórnarkona í KSÍ.




Skoðun

Sjá meira


×