Innlent

Sam­fé­lagið fari ekki á hliðina án tíufrétta

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jóhanna Vigdís hefur trú á fréttastofu sinni og þjóðinni.
Jóhanna Vigdís hefur trú á fréttastofu sinni og þjóðinni. Skjáskot/Sýn

Kaflaskil í fjölmiðlasögunni eiga sér stað í kvöld þegar síðasti tíufréttatíminn fer í loftið hjá Ríkisútvarpinu. Tíufréttir hafa verið í loftinu í einni eða annarri mynd frá árinu 1988.

Tilfinningar landsmanna eru, líkt og við allar breytingar, blendnar en Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttakona segist ekki halda að samfélagið fari á hliðina.

Hvers vegna þessar breytingar?

„Ég veit það hljómar svolítið öfugsnúið en við erum að gera þetta til þess að bæta þjónustuna við okkar hlustendur, áhorfendur og lesendur á vefnum. Við ætlum síðar á þessu ári síðan að færa aðalfréttatímann til klukkan átta og búa til feitari pakka. Svo ætlum við að auka þjónustuna á vefnum. Við verðum víðar fyrir allra vegna þess að við erum jú almannaútvarp fyrir alla,“ segir hún en hún les síðustu tíufréttirnar í kvöld.

Hún segir skrítið að kveðja myndverið.

„Þetta stúdíó er búið að vera heimavöllur minn í þrjátíu ár núna en ég er svo bjartsýn á það sem er framundan hjá okkur og við erum öll svo samtaka í þessu á fréttastofunni og hér á RÚV. Þannig að það er í raun bara tilhlökkun sem ræður yfir hér,“ segir Jóhanna Vigdís.

Jóhanna rifjar þá upp þegar núverandi fyrirkomulag á fréttatímanum var innleitt árið 1999.

„Þá fór samfélagið á hliðina. Ég held að það gerist ekki núna og ég vona að þegar fram líða stundir að þá muni allir sjá hver voru okkar meginmarkmið og hver tilgangurinn var með þessu,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×