Fótbolti

Miða­sala FIFA gagn­rýnd: Einn borgar 60 þúsund en annar 1.300 fyrir eins miða

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, hittir gamlar hetjur; Ronaldo, Roberto Baggio og David Beckham fyrr á mótinu.
Gianni Infantino, forseti FIFA, hittir gamlar hetjur; Ronaldo, Roberto Baggio og David Beckham fyrr á mótinu. Image Photo Agency/Getty Images

Miðasala FIFA á undanúrslitaleik Chelsea og Fluminense á HM félagsliða í Bandaríkjunum sætir gagnrýni. Dýnamískt miðasölukerfi sambandsins sem tekur mið af eftirspurn lækkaði miðaverð á leikinn um 97 prósent á þremur sólarhringum.

Fólk sem var á tánum og keypti snemma miða á komandi undanúrslitaleik situr eftir með sárt ennið og fátæklegri bankabók en aðrir sem keyptu miða þremur dögum síðar. Verð á ódýrustu hefðbundnum miðum á leik enska liðsins Chelsea og brasilíska félagsins Fluminensem, nam á þriðjudaginn var 473,9 dollurum, tæplega 60 þúsund íslenskum krónum.

Vegna lakrar eftirspurnar höfðu samskonar miðar lækkað niður í 13,4 dollara, um 1.300 krónur, á laugardagsmorgun. Verðið hafði því lækkað um 97,3 prósent fyrir samskonar miða á MetLife-völlinn, heimavöll New York Jets og New York Giants í NFL-deildinni, sem staðsettur er í New Rutherford í New Jersey.

Miðaverðið eftir lækkunina þýðir jafnframt að dýrara er fyrir áhorfendur að kaupa sér Philly ostasteik (15 dalir) eða bjór (14 dalir) á vellinum í New Jersey, heldur en aðgang að leiknum.

Miðasala hefur gengið illa á mótinu vestanhafs og sjónvarpsáhorfendur orðið varir við hálftóma stúku og flestum leikjum. Sjálfboðaliðar á mótinu fengu margir hverjir boð um fjóra boðsmiða á alla leiki átta liða úrslita mótsins, að leik Dortmund og Real Madrid undanskildum.

FIFA selur miða á leiki mótsins í gegnum veituna Ticketmaster og sjá hefur mátt miklar sveiflur á miðaverði í gegnum allt mótið. Aðallega hefur þróunin verið niður á við, líkt og fyrir leik Fluminense og Chelsea.

FIFA hefur ekki tjáð sig um hvort stuðningsmenn sem keyptu miða á leikinn á upprunalegu verði fái einhverskonar endurgreiðslu samkvæmt Adam Crafton, blaðamanni The Athletic.

Fluminense og Chelsea mætast klukkan 19:00 annað kvöld. Sólarhring síðar eigast Real Madrid og PSG við á sama velli í síðari undanúrslitaleiknum.

Úrslitaleikur mótsins fer einnig fram á MetLife-vellinum, sunnudagskvöldið 13. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×