Erlent

Bresk stjórn­völd hyggja á að­gerðir gegn trúnaðarsamningum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Zelda Perkins, sem er til vinstri á myndinni, braut gegn trúnaðarsamningi til að segja frá misnotkun Harvey Weinstein. Hún hefur barist fyrir lagabreytingum.
Zelda Perkins, sem er til vinstri á myndinni, braut gegn trúnaðarsamningi til að segja frá misnotkun Harvey Weinstein. Hún hefur barist fyrir lagabreytingum. Getty/Dave Benett

Stjórnvöld á Bretlandseyjum hyggjast gera breytingar á vinnuverndarlöggjöfinni, sem munu gera það að verkum að vinnuveitendur geta ekki lengur múlbundið starfsmenn sína með því að láta þá undirrita trúnaðarsamning.

Svokallaðir NDAs, eða „non-disclosure agreements“, hafa komist í hámæli síðustu ár, ekki síst í tengslum við #metoo hreyfinguna, þar sem konur brutu meðal annars gegn trúnaðarsamningum til þess að greina frá misnotkun af hálfu kvikmyndagerðarmannsins Harvey Weinstein.

Ef marka má umfjöllun breskra miðla verða trúnaðarsamningar ekki beinlínis bannaðir, heldur munu þeir ekki lengur geta kveðið á um að starfsmaður tjái sig ekki um atvik eða hegðun sem geta flokkast sem misnotkun eða mismunun. 

Þannig verður ekki hægt að refsa einstaklingum á grundvelli trúnaðarsamninga ef þeir segja frá misnotkun eða mismunun.

Ákvörðun stjórnvalda kemur á hæla þess að fjallað var um meint kynferðisbrot Mohamed Al Fayed heitins, fyrrum eiganda Harrods, sem er sagður hafa brotið gegn fjölda starfsmanna verslunarinnar og þaggað niður í þeim með því að láta konurnar undirrita trúnaðarsamninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×