Erlent

Sak­sóknari í Epstein-málinu látinn taka pokann sinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Því hefur löngum verið haldið fram að í gögnum Epstein-málsins sé að finna nöfn valdamikilla manna sem kunni að hafa misnotað stúlkur með athafnamanninum.
Því hefur löngum verið haldið fram að í gögnum Epstein-málsins sé að finna nöfn valdamikilla manna sem kunni að hafa misnotað stúlkur með athafnamanninum. Getty/Images

Alríkissaksóknarinn Maurene Comey fékk reisupassann í gær en hún starfaði á Manhattan og kom meðal annars að málum ríkisins gegn Sean Combs, Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell.

Engar ástæður hafa verið gefnar fyrir því að Comey var sagt upp störfum en tímasetningin vekur athygli, þar sem deilur standa nú yfir meðal Repúblikana um birtingu gagna í Epstein-málinu.

Það ber hins vegar einnig að nefna að Maurene er elsta dóttir James Comey, fyrrverandi forstjóra Alríkislögreglunnar, sem er síður en svo í uppáhaldi hjá Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Sumir dyggustu stuðningsmanna Trump hafa lent í andstöðu við forsetann varðandi Epstein-málið síðustu daga en á meðan þeir hafa kallað eftir því að öll gögn í málinu verði gerð opinber, hefur forsetinn freistað þess að gera lítið úr því.

Dómsmálaráðherrann Pam Bondi hefur orðið tvísaga um tilvist lista yfir nána samtarfsmenn Epstein, og mögulega meðsektarmenn, en nú segir hún engan slíkan lista til þrátt fyrir að hafa áður haft á orði að hann lægi á borðinu hjá sér.

Politico fjallaði um Epstein-málið á þriðjudag, degi áður en Comey var látin fjúka, og greindi meðal annars frá aðkomu saksóknarans. Comey var á móti birtingu gagna málsins á sínum tíma og New York Times gerir því skóna að mögulega hyggist stjórnvöld nota hana sem blóraböggul til að lægja öldurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×