Golf

Veiði­maðurinn leiðir á Opna breska

Valur Páll Eiríksson skrifar
Harman hefur farið mikinn í dag.
Harman hefur farið mikinn í dag. Richard Heathcote/Getty Images

Bandaríkjamaðurinn Brian Harman hefur verið á mikilli siglingu á Opna breska meistaramótinu í golfi á öðrum degi. Hann er með eins höggs forystu á næstu menn.

Suðurríkjastubburinn Harman, sem er mikill skotveiðimaður utan golfvallarsins, hefur leikið frábærlega í dag og er eftir 17 holur á fimm undir pari. Hann hefur spilað jafnt golf, er ekki með nein látalæti sem hafa skilað fimm fuglum en aðrar brautir hefur hann farið á pari.

Veiðimaðurinn Harman vann Opna breska árið 2023, sem er eini risatitill hans á ferlinum, og einn aðeins fjögurra PGA sigra kappans.Instagram@harmanbrian

Eftir að hafa leikið á tveimur undir pari í gær er hann því á sjö höggum undir pari sem stendur. Þar á eftir er Kínverjinn Li Haotong sem var á meðal þeirra fimm sem voru efstir eftir fyrsta hringinn. Li lék á fjórum undir pari í gær og er á tveimur undir eftir fimm holur í dag, alls sex undir.

Þar á eftir koma Daninn Rasmus Höjgaard, sem fór hring dagsins á þremur undir, Englendingurinn Tyrrell Hatton, Kaninn Harris English og Skotinn Robert MacIntyre, allir á fimm undir pari. MacIntyre hefur leikið þeirra best í dag, á fimm undir, líkt og Harman.

Rory McIlroy lék á höggi undir pari á heimavellinum í gær eftir skrautlegan hring og er sömuleiðis á höggi undir í dag, eftir 13 holur.

Matt Fitzpatrick var á meðal þeirra sem leiddu eftir fyrsta hring en hann á eftir að hefja leik. Sömuleiðis eiga Scottie Scheffler og munkurinn Sadom Kaewkanjana frá Taílandi (-3) eftir að hefja leik í dag.

Bein útsending frá Opna breska stendur yfir á Sýn Sport 4 og mun vara langt fram á kvöld.


Tengdar fréttir

Tvíburar jafnir eftir fyrsta dag á Opna breska

Dönsku tvíburarnir Nicolai og Rasmus Höjgaard eru ekki bara að vekja athygli á Opna breska risamótinu í golfi fyrir að komast báðir á þetta eftirsótta síðasta risamót ársins.

Munkur slær í gegn á Opna breska

Eftir fyrsta daginn á Opna breska meistaramótinu í golfi er nafn ofarlega á lista yfir efstu menn sem fáir kannast við. Sadom Kaewkanjana er nafnið en árið 2023 tók hann sé óvænt hlé frá golfíþróttinni og gekk í klaustur.

Dani og Kínverji leiða á Opna breska

Daninn Jacob Skov Olesen og Kínverjinn Li Haotong leiða Opna breska meistaramótið í golfi um miðjan dag. Báðir hafa lokið fyrsta hring á fjórum undir pari vallar.

Endurnýja kynnin: „Stórar skoðanir en ekki endilega góðar skoðanir“

Opna breska meistaramótið í golfi fer fram um helgina og hófst raunar snemma í morgun. Rory McIlroy mun þar leika á heimavelli en hann bognaði undan pressu síðast þegar mótið fór fram á Norður-Írlandi. Gamlir félagar endurnýja kynnin í lýsingu mótsins á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×