Fótbolti

Ballið ekki búið hjá Breiðabliki

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Blikar geta huggað sig við það að síðast þegar þeir töpuðu svona illa í Meistaradeildinni komust þeir á endanum í Sambandsdeildina.
Blikar geta huggað sig við það að síðast þegar þeir töpuðu svona illa í Meistaradeildinni komust þeir á endanum í Sambandsdeildina. vísir

Eftir afhroðið í Póllandi í gærkvöldi er ansi líklegt að Breiðablik sé úr leik í undankeppni Meistaradeildarinnar en Blikarnir finna sig í kunnuglegum sporum og fá tvo sénsa til viðbótar, fyrst í Evrópu- og svo Sambandsdeildinni. Næsti áfangastaður verður að öllum líkindum Bosnía og þangað muna Blikar mæta í miklum hefndarhug.

Breiðablik tapaði fyrri leiknum gegn Lech Poznan í gærkvöldi 7-1 og þarf á meiriháttar kraftaverki á Kópavogsvelli að halda í næsta viku ef einvígið á að snúast.

Á sama tíma og sá leikur fór fram tapaði bosníska liðið Zrinjski Mostar 4-0 í leik sínum gegn Slovan Bratislava frá Slóvakíu. Það einvígi er því einnig nokkurn veginn útkljáð nema svakalegur viðsnúningur verði í Bosníu í næstu viku.

Tapliðin tvö í þessum einvígum, Breiðablik og Zrinjski Mostar að öllum líkindum, detta úr leik í Meistaradeildinni og mætast í undankeppni Evrópudeildarinnar.

Höskuldur Gunnlaugsson í leik gegn Zrinskij Mostar árið 2023.vísir

Nákvæmlega sama staða og árið 2023

Árið 2023 tapaði Breiðablik stórt gegn FC Kaupmannahöfn í Meistaradeildinni, alveg eins og gegn Lech Poznan í gær.

Blikar mættu svo Zrinjski Mostar í Evrópudeildinni og töpuðu samanlagt 6-3 eftir hryllilegan fyrri hálfleik í fyrri leiknum en sigur á Kópavogsvelli í seinni leiknum.

Breiðablik fór þá í umspil upp á sæti í Sambandsdeildinni og tryggði sér þátttökurétt í riðlakeppninni með 2-0 sigri í einvíginu gegn Struga frá Makedóníu.

Viktor Karl skoraði markið sem gulltryggði Breiðabliki sæti í Sambandsdeildinnivísir

Breiðablik finnur sig því í sömu sporum og fyrir tveimur árum og á enn góðan séns á sæti í annað hvort Evrópu- eða Sambandsdeildinni.

Jafnvel þó Breiðablik tapi næsta einvígi gegn Zrinskij Mostar fara þeir í umspil upp á sæti í Sambandsdeildinni.

Ef Blikum tekst hins vegar að vinna væntanlegt einvígi gegn Zrinskij Mostar eru þeir öruggir með sæti í Sambandsdeildinni en fara í umspil upp á sæti í Evrópudeildinni. Sigurvegarinn í því umspili fer í Evrópudeildina, en tapliðið í Sambandsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×