Lífið

Harrý rétti fram eins konar sátta­hönd

Jón Þór Stefánsson skrifar
Harrý kyssir Karl föður sinn meðan Vilhjálmur horfir á.
Harrý kyssir Karl föður sinn meðan Vilhjálmur horfir á. Getty

Harrý Bretaprins er sagður bjóðast til þess að deila dagatali sínu með bresku konungsfjölskyldunni. Með því er hann talinn rétta fram eins konar sáttahönd eftir að hafa átt í stormasömu sambandi við fjölskyldu sína.

People greinir frá þessu. En umrædd bón mun hafa verið rædd á fundi milli teymis Harrýs og samskiptastjóra konungsins fyrr í þessum mánuði.

Með því að deila dagatalinu, og þar með greina frá því hvar og hvenær hann sæki opinbera viðburði, er Harrý sagður gefa konungsfjölskyldunni ráðrúm til að skipuleggja eigin viðburði með það í huga til að forðast árekstra.

Harrý var á dögunum sakaður um að skyggja á konungsfjölskylduna þegar heimsókn hans til Angóla átti sér stað á sama tíma og 78 ára afmælisveisla Kamillu drottningar. Heimsókn Harrýs þótti fá meiri athygli en afmælið.

People segir að Harrý hafi þar að auki óskað eftir að hitta föður sinn, Karl konung, í eigin persónu. Þeir tveir sáust síðast saman í febrúar í fyrra, eftir að greint var frá krabbameinsgreiningu Karls. Þá flaug Harrý frá Kalíforníu til Bretlands, átti stuttan fund með konungnum, og sneri síðan heim vestur degi síðar.

Heimildarmenn People tala um áðurnefndan fund sem jákvætt eða gott skref. Þá kemur fram að hvorki Vilhjálmur krónprins, né Katrín prinsessa hafi verið meðvituð um þennan fund.

Í maí síðastliðnum sagði Harrý í viðtali við BBC að honum þætti vænt um að tengjast fjölskyldu sinni á ný. Og að hann sæi ekki tilgang í því að eiga í átökum við hana, hvað þá þegar faðir hans væri veikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.