Íslenski boltinn

Arf­takinn sagður koma frá Hlíðar­enda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Hrafn mun leysa Jóhannes Kristinn af hólmi í Vesturbænum.
Orri Hrafn mun leysa Jóhannes Kristinn af hólmi í Vesturbænum. Vísir/Diego/Guðmundur

Það virðist sem KR sé nú þegar búið að finna arftaka Jóhannes Kristins Bjarnasonar á miðsvæðinu. Sá heitir Orri Hrafn Kjartansson og hefur verið í litlu hlutverki hjá Val, toppliði Bestu deildar karla í knattspyrnu, á leiktíðinni.

Fótbolti.net greinir frá.

Miðjumaðurinn Jóhannes Kristinn hefur samið við danska B-deildarliðið Kolding. Munar um minna fyrir KR-inga þar sem þessi tvítugi miðjumaður hefur komið með beinum hætti að 10 deildarmörkum á leiktíðinni.

Orri Hrafn var gríðarlega eftirsóttur þegar hann gekk í raðir Vals frá Fylki árið 2022. Síðan þá hefur hann átt erfitt með að festa sig í sessi á Hlíðarenda. Samningur hans við Val rennur út í haust.

Hluta úr síðustu leiktíð var Orri Hrafn á láni hjá Fylki. Í ár hefur hann tekið þátt í 14 af 16 deildarleikjum Vals en aðeins byrjað fimm þeirra.

Jóhannes Kristinn er ekki eini miðjumaður KR sem er á förum frá liðinu. Hinn ungi og efnilegi Alexander Rafn Pálmason er nefnilega á leið til Danmerkur í næsta mánuði að ganga frá samningi sínum við efstu deildarliðið FC Nordsjælland.

Danski miðillinn Bold greinir frá að 15 ára gamli Alexander Rafn muni skipta snemma árs 2026 þegar hann hefur fagnað 16 ára afmæli sínu.

Nordsjælland er sagt borga metfé fyrir Alexander Rafn.Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

Valur er sem áður sagði í toppsæti Bestu deildarinnar með 33 stig að loknum 16 umferðum, tveimur stigum meira en Víkingur og Breiðablik. Þá er liðið komið í úrslit Mjólkurbikars karla. KR er á sama tíma í 11. sæti með 17 stig, einu stigi frá öruggu sæti.

Fótbolti.net greinir einnig frá því að vængmaðurinn Ali Al-Mosawe sé á leið til Njarðvíkur á láni frá Víkingum. Hann samdi við Víking í apríl og hefur komið við sögu í níu leikjum með félaginu.

Njarðvík er í 2. sæti Lengjudeildar eftir 14 umferðir með 28 stig. Á þriðjudagskvöld taka Njarðvíkingar á móti HK í miklum toppbaráttuslag en HK er í 3. sæti með 28 stig.

ÍR trónir á toppi deildarinnar með stigi meira en Njarðvík. Í von um að tryggja sér sæti í Bestu deildinni hafa Breiðhyltingar sótt tvo leikmenn á láni.

Uppaldi ÍR-ingurinn Óliver Elís Hlynsson er genginn aftur í raðir félagsins á láni frá Fram. Gils Gíslason er jafnframt kominn á láni frá FH annað árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×