Innlent

Á­kærð fyrir að bana föður og til­raun til að bana móður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan er ákærð fyrir manndráp og tilraun til manndráps á heimili fjölskyldunnar við Súlunes í Garðabæ.
Konan er ákærð fyrir manndráp og tilraun til manndráps á heimili fjölskyldunnar við Súlunes í Garðabæ.

Héraðssaksóknari hefur ákært 28 ára konu í Garðabæ fyrir manndráp, með því að hafa orðið föður sínum að bana, og tilraun til að verða móður sinni að bana. Konan hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan málið kom upp í apríl.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, staðfestir efni ákærunnar í samtali við Vísi en hún fæst ekki afhent að svo stöddu. Konan, hin 28 ára gamla Margrét Halla Hansdóttir Löf, er sökuð um að hafa orðið föður sínum að bana á heimili fjölskyldunnar föstudaginn 11. apríl.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var eiginkona hans flutt illa slösuð á sjúkrahús um svipað leyti eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás dótturinnar. Fyrir þá árás er dóttirin ákærð fyrir tilraun til manndráps.

Auk þess er dóttirin ákærð fyrir stórfelld brot í nánu sambandi gagnvart bæði föður sínum og móður. Fólk sem þekkir til fjölskyldunnar hefur lýst því í samtali við fréttastofu að dóttirin hafi beitt foreldra sínu andlegu og líkamlegu ofbeldi árum saman sem foreldrarnir hafi látið yfir sig ganga.

Karl Ingi segir að varakrafa héraðssaksóknara hljóði upp á stórfellda líkamsárás bæði gagnvart móðurinni og föðurnum, Hans Roland Löf sem var á áttugasta aldursári þegar hann lést.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var það móðirin sem hringdi í Neyðarlínuna að morgni föstudagsins 11. apríl þegar eiginmaður hennar hneig niður í framhaldi af ofbeldi dótturinnar. Hjónin bjuggu í einbýlishúsi við Súlunes á Arnarnesinu í Garðabæ. Töluverðir áverkar voru á móðurinni samkvæmt heimildum fréttastofu og lá hún inni á Landspítalanum í nokkra daga.

Sonur hins látna gerir kröfu um miskabætur úr hendi Margrétar hálfsystur sinnar upp á sex milljónir króna. Eiginkona hins látna og móðir ákærðu gerir ekki kröfu um bætur vegna málsins. Dagsetning fyrir þingfestingu málsins sem verður til meðferðar við Héraðsdóm Reykjaness liggur ekki fyrir.


Tengdar fréttir

Dóttirin í Súlunesi ákærð

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Margréti Höllu Hansdóttur Löf, 28 ára konu, sem sökuð er um aðild að andláti föður síns á heimili þeirra í Súlunesi í Garðabæ í apríl síðastliðnum.

Nafn mannsins sem lést í Garðabæ

Maðurinn sem lést í Garðabæ á mánudaginn hét Hans Roland Löf og var fæddur árið 1945. Gæsluvarðhald yfir dóttur mannsins var í dag framlengt um þrjár vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×