Viðskipti innlent

Ferðum Play til London, Parísar og Ber­línar „sjálf­hætt“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Einar Örn Ólafsson er forstjóri Play.
Einar Örn Ólafsson er forstjóri Play. Vísir/Vilhelm

Forstjóri Play bindur vonir við að fyrirhuguð skuldabréfaútgáfa félagsins og breytingar í rekstri verði til þess að koma félaginu úr ólgusjó. Félagið stefnir enn að því að gera fjórar vélar út á Íslandi og fljúga suður á bóginn.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, sagðist í viðtali í Viðskiptamogganum í dag ekki útiloka að flugfélagið dragi sig alfarið út af íslenskum markaði, verði samkeppni hér á landi óbærileg. Í samtali við fréttastofu segir hann þetta einfaldlega eina af mörgum mögulegum sviðsmyndum sem geti komið upp í flugrekstri. Planið sé hins vegar óbreytt.

„Sem er að vera með fjórar vélar á Íslandi og svo sex sem við erum að fljúga annars staðar fyrir aðra flugrekendur. Það er auðvitað hægt að leika sér með einhverjar sviðsmyndir hingað og þangað; að við förum aftur að fljúga til Bandaríkjanna, stækkum aftur eða minnkum meira,“ segir Einar en ítrekar að grunnsviðsmyndin sé óbreytt.

Fjórum flugvélum Play verður flogið til og frá Íslandi í breyttu leiðarkerfi.Play

Félagið stefnir að því að fljúga einungis undir maltneksku flugrekstrarleyfi og stendur nú í breytingum á leiðarkerfi sínu. Frá Íslandi verður lögð áhersla á að fljúga suður á bóginn.

„Með haustinu munum við hætta með Norður-Ameríkuflugið og þá er sumu leyti sjálfhætt með margar af Norður-Evrópu borgunum líka vegna þess að farþegarnir þar hafa margir hverjir verið á leiðinni yfir hafið. Við munum eitthvað halda áfram með Norður-Evrópu, Danmörku og eitthvað fleira, en fókusinn verður á suðrið,“ segir Einar en ferðir félagsins til London, Parísar, Berlínar, Amsterdam og Dublin leggjast af í haust. Þá verður hvorki flogið til Varsjár né Prag og einungis tvisvar í  viku til Kaupmannahafnar.

Play sendi frá sér afkomuviðvörun í síðustu viku þar sem búist er við því að afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi verði lakari en á sama tímabili í fyrra og undir væntingum.Vísir/Vilhelm

Eftir tvær vikur fer fram hluthafafundur Play þar sem óskað verður eftir samþykki hluthafa fyrir skuldabréfaútgáfu upp á 2,4 milljarða króna. Þetta var ákveðið eftir að fallið var frá yfirtökutilboði í félagið sem sendi frá sér afkomuviðvörun í síðustu viku. Einar segir þetta mikilvægan lið í að styrkja reksturinn.

„Það hefur auðvitað ekki allt gengið upp sem við höfum áformað. Erum nýlega búin að tilkynna um útgáfu skuldabréfsins sem síðan verður samþykkt á hluthafafundi. Þessi útgáfa er til þess fallin að tryggja rekstur félagsins áfram og ef fólk les rétt í þetta ætti hún að vera til þess að sefa áhyggjur ef einhverjar voru. Við erum auðvitað að gera þessar breytingar til þess að komast út úr þessum ólgusjó sem baráttan á Atlantshafinu er og sigla félaginu í minni óróleika,“ segir Einar. 

„Ég held að það sé öllum ljóst að það sé mjög mikilvægt fyrir íslenska neytendur að Play sé til staðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×