Erlent

Múhameð eykur for­skotið og enginn nefndur Keir

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Vinsældir nafnsins Keir hafa minnkað í valdatíð forsætisráðherrans.
Vinsældir nafnsins Keir hafa minnkað í valdatíð forsætisráðherrans. AP

Enginn nýburi var nefndur Keir í Bretlandi í fyrra, í fyrsta sinn síðan farið var að skrásetja gögn þess efnis. Múhameð var vinsælasta strákanafnið annað árið í röð, en meðal stúlkna var það Olivia sem var vinsælast.

Telegraph greinir frá gögnum sem breska hagstofan birti í morgun þar sem finna má tölfræði yfir vinsælustu nöfn stráka og stelpna í Englandi og Wales.

Þar segir að fjórir strákar hafi fengið nafnið Keir árið 2023, en engir í fyrra. Keir Starmer tók við sem forsætisráðherra Bretlands í júlí 2024.

Sagt er frá því að uppruna nafnsins Keir megi rekja til Írlands, en eigi einnig rætur í Skotlandi.

Sjálfur hafi Keir Starmer verið nefndur eftir Keir Hardie, einum af stofnendum verkamannaflokks Bretlands og fyrsta þingflokksleiðtoga hans.

Í fyrra voru sextán strákar nefndir Boris, og fimm fengu nafnið Nigel.

Vinsældir nafnsins Boris jukust eilítið þegar hann varð forsætisráðherra árið 2019, en það ár fengu 39 strákar nafnið og 43 árið 2020.

Þegar Rishi Sunak varð forsætisráðherra árið 2022 voru 36 strákar sem fengu nafnið, en 37 voru nefndir Rishi árið eftir, 2023.

Múhameð eykur forskotið

Vinsældir Múhameðs jukust um fjórðung milli áranna 2023 og 2024, og jók þar með forskot sitt í fyrsta sæti vinsældarlistans. 

Í fyrra fæddust 5.721 sem fengu nafnið Múhameð, samanborið við 4.661 árið á undan, 2023, en það var í fyrsta sinn sem nafnið varð vinsælasta nafn nýfæddra breskra stráka.

Í öðru sæti vinsældarlistans var nafnið Noah, en 4.139 strákar fengu nafnið Noah í fyrra. Í þriðja sæti var Oliver, í fjórða sæti Arthur og í því fimmta var Leo.

Meðal stúlkna var nafnið Olivia vinsælast, níunda árið í röð. Þar á eftir kom Amelia, svo Lily, í því þriðja Isla og því fimmta Ivy.

Nánar má lesa um málið í Telegraph.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×