Enski boltinn

Mo Salah krefur UEFA um svör vegna Palestínu Pele

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah leikur í dag fyrsta keppnisleikinn á tímabilinu þegar Liverpool mætir Crystal Palace í leiknum um Samfélagsskjöldinn á Wembley.
Mohamed Salah leikur í dag fyrsta keppnisleikinn á tímabilinu þegar Liverpool mætir Crystal Palace í leiknum um Samfélagsskjöldinn á Wembley. Getty/Carl Recine

Mohamed Salah, framherji Liverpool, hefur gagnrýnt Knattspyrnusamband Evrópu með því að setja spurningarmerki við tilkynningu UEFA um andlát palestínska knattspyrnumannsins Suleiman al-Obeid.

UEFA sagði frá því að Al-Obeid væri látinn en ekkert um það hvernig það kom til eða hvar það gerðist.

Al-Obeid, sem var 41 árs gamall, var skotinn til bana á Gaza-ströndinni af ísraelskum hermönnum á meðan hann var að bíða eftir hjálpargögnum í hinni miklu hungursneyð sem ríkir á svæðinu.

Það eina sem UEFA skrifaði með mynd af Al-Obeid var: „Farewell to Suleiman al-Obeid, the ‚Palestinian Pele'“ eða „Farðu heill, Suleiman al-Obeid, Palersínu Pele“ og bætti svo við „Hæfileikaríkur leikmaður gaf óteljandi börnum von, líka á myrkustu tímum“.

Al-Obeid hafði viðurnefnið Palestínu Pele vegna tilþrifa sinna inn á vellinum en hann skoraði meira en hundrað mörk á ferlinum þar af tvö þeirra í landsleikjum með Palestínu.

Salah deildi færslu UEFA en spurði jafnframt: „Getið þið sagt okkur hvernig hann dó, hvar og af hverju?“

Mohamed Salah er Egypti og hefur áður talað fyrir því að fólkið á Gaza fái mannúðaraðstoð.

Ísrael réðist á Gaza-ströndina eftir að Hamas samtökin drápu 1200 manns og rændu 251 til viðbótar 7. október 2023.

Síðan þá hafa meira en 61 þúsund manns verið drepnir á Gaza-ströndinni í árásum Ísraelsmanna þar af 38 bara á síðasta sólarhring.

Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna þá hefur 1373 Palestínumaður verið skotinn til bana síðan í maí við það eitt að reyna að ná sér í matargjöf í neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×