Innlent

B sé ekki best

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Bjarki Már Baxter er fjögurra barna faðir.
Bjarki Már Baxter er fjögurra barna faðir. Bylgjan

Foreldri grunnskólabarna segir einkunnakerfi byggt á bókstöfum draga úr hvata nemenda til að gera betur og sé skalinn of víður. Hann segir kennara viðurkenna að kerfið veiti þeim ekki nægar upplýsingar til að sinna starfi sínu og gagnrýnir harðlega „yfirborðskennda“ aðgerðaáætlun menntamálaráðuneytisins.

„Þetta er bein tilvitnun í umsjónarkennara einnar af dætrum mínum í grunnskóla,“ segir Bjarki Már Baxter, lögmaður á Málþingi lögmannsstofu og fjögurra barna faðir, er hann ræddi grein sem hann birti í Morgunblaðinu titluð „B er best.“

„Hún er að undirbúa bekkinn og foreldra sem eru þarna viðstaddir. Hún segir „krakkar, hafið nú í huga að B er best.“ Þetta sat í mér, ég ranghvolfdi augunum. Ég held ég viti alveg hvað hún var að undirbúa börnin undir, hún var að undirbúa þau fyrir að þegar þau kæmu heim og skoðuðu einkunnirnar að þetta væri minna og meira B. Ég fer að skoða kerfið, þá er það uppbyggt þannig þetta einkunnakerfi að skalinn er svo víður,“ segir Bjarki sem var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni.

Hann segir það mismunandi hvað einkunnin B þýði eftir fögum og aldri barnanna. Sem dæmi tekur Bjarki stærðfræðipróf sem dóttir hans þeytti. Einkunnin B var jafngild 4,5 til 7,5 á gamla einkunnaskalanum.

„Þetta er semsagt frá falli í mjög góða einkunn. Ég fæ þá tilfinningu að það sé markmið menntakerfisins að það séu allir með B,“ segir Bjarki.

„Ég get tekið annað dæmi, dóttir mín var að læra fyrir útskrift úr tíunda bekk allan síðasta vetur og við vorum náttúrulega að meta hennar möguleika að komast í menntaskóla. Ég fer inn á þessi kerfi Mentor og sé að hún er svolítið gegnumgangandi, hún er með B í öllu. En ég veit ekkert af því að skalinn er svo víður, hvort að hún sé að detta niður í C eða komast upp í A.“

Vöntun á hvata stærsta vandamálið

Bjarki segir marga vankanta vera á íslenska menntakerfinu, til að mynda sé enginn hvati fyrir nemendur til að gera betur. Þá læri börnin heldur ekki að takast á við að ná ekki markmiðunum sínum.

„Menntun snýst um í mínum huga að þú sért að keppa við sjálfan þig, að þú sért að ná árangri,“ segir hann.

„Ef þú ert með einhverja B-einkunn sem er á einhverju skala ertu kannski bara dæmdur til að vera þar, það er enginn hvati til að gera betur. Ég held að það sé stærsta vandamál kerfisins, það vantar hvata fyrir nemendur og kennara að gera betur.“

Hann tekur jafnframt fram að hann sé ekki menntaður í þessum fræðum, heldur tali sem foreldri.

„Ég er bara foreldri, ég er ekki menntaður kennari eða uppeldis- eða kennslufræðingur. Ég er að tala út frá minni reynslu.“

Að hans mati er staðan í menntakerfinu afskaplega slæm og fátt sé gert til að afstýra vandanum.

„Við erum á einhverri vegferð, eins og með þessu bókstafakerfi, sem ég held að sé ekki að hjálpa okkur út úr því.“

Skiptar skoðanir kennara

Bjarki Már segist hafa fengið sterk viðbrögð við greininni sem hann skrifaði en neikvæðu viðbrögðin komi aðallega frá kennurum. Hins vegar segist hann einnig sjálfur hafa rætt við nokkra kennara barnanna sinna sem líki illa við fyrirkomulag einkunna.

„Ég hef rætt í öllum foreldraviðtölum við kennara um þetta einkunnakerfi, á mjög góðum nótum, ég er ekkert að gagnrýna þau í tveggja manna tali heldur fá bara betri upplýsingar. Ef ég næ kennurunum á gott eintal þá kemur akkúrat þetta, að þeir viðurkenna sjálfir að leiðbeiningarnar sem þeir fá til að starfa innan þessa kerfis eru ófullkomnar, þeim líði ekkert endilega vel í því,“ segir hann.

„Ég var meira að segja í einu foreldri með kennara með töluverðan starfsaldur þar sem hún var með neðst í bunkanum einkunnir nemanda eftir einn til tíu skalanum, hún sagði að hún hefði verið svo lengi í þessu að henni fyndist þetta skýrara en hún mætti ekkert vera að sýna þetta.“

Kallar eftir aðgerðum og upplýsingum

Hann gefur þá lítið fyrir aðgerðaáætlun stjórnvalda í málaflokknum.

„Í júlí, mánuði eftir að þessi skýrsla kemur, þá birtir menntamálaráðuneytið aðgerðaskýrslu. Ég las hana, ég er ekkert í pólitík og hef enga þörf fyrir stór orð en orðið froða, aðgerðaáætlun án aðgerða og eitthvað svona kom í hugann. Þetta er svona yfirborðskennt skjal en það er ekkert í þessu skjali sem er að fara breyta um kúrs,“ segir Bjarki.

Hann kallar eftir því að nákvæmari upplýsingar um árangur grunnskólabarna eftir skólum og landsvæðum verði birtar í þeim tilgangi að foreldrar og börn geti gert sér grein fyrir hvar þau standi á landsvísu. Þá hvetur hann foreldra og aðra til að ræða málaflokkinn betur.

„Við þurfum að vera óhrædd sem samfélag að taka þetta mál upp,“ segir Bjarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×