Skoðun

Normið á ekki síðasta orðið

Katrín Íris Sigurðardóttir skrifar

Á hverju ári eftir Gleðigöngunni kemur upp spurningin „á BDSM fólk heima í göngunni?“ Í kjölfarið skapast gjarnan umræður þar sem BDSM er smættað niður í þrönga skilgreiningu sem einblínir á þær athafnir sem BDSM fólk gerir en skautar alveg fram hjá mögulegum vangaveltum um af hverju BDSM fólk gerir þessar athafnir og upplifun einstaklinga sem skilgreina sig sem BDSM hneigða er alfarið afskráð. Þessi afstaða byggir á misskilningi um að hinseginleiki geti aðeins verið kynhneigð eða kynvitund sem samfélagið samþykkir en raunveruleikinn er sá að hinseginleiki er víðari, róttækari og pólitískari en það.

Hugtakið hinsegin nær yfir allt sem brýtur upp ríkjandi norm um kyn, kynhneigð, kynverund og tengsl. BDSM í gruninn snýst um óhefðbundin sambönd, valdaskipti, kynferðislega tjáningu og fjölbreytta nálgun á nánd og sjálfsmynd. Fyrir marga er BDSM mikilvæg sjálfstjáning og hluti af því hvernig fólk skilgreina sig sem einstaklinga fyrir utan hið hefðbundna. Það er með öðrum orðum að vera hinsegin.

BDSM fólk hefur staðið í sinni réttindabaráttu líkt og aðrir hinsegin hópar. Við höfum þurft að berjast gegn sjúkdómsvæðingu og stimplun, gegn því að samþykkt kynferðisleg hegðun sé gerð refsiverð eða að fólk eigi ekki í hættu við að BDSM iðkun þeirra sé notuð gegn þeim í forræðisdeilum eða á atvinnu markaði. Landlæknir tók mikilvægt skref árið 2015 með því að afnema BDSM-hneigðir úr sjúkdómaskrá sem loks viðurkennir að fjölbreytni í kynverund og samböndum er ekki afbrigðileg, heldur mannleg.

Gleðigangan sýnir fram á þessa fjölbreytni, hún stillir sér ekki upp með þeim sem ákveða hvað telst „viðeigandi“ hinseginleiki. Hún stendur með þeim sem hafa þurft að berjast fyrir tilverurétt sínum, líka þegar það fer út fyrir ramma þess sem samfélagið þykist geta samþykkt. BDSM er hinseginleiki. Ekki sem aukaatriði heldur sem sjálfstæð, gild og nauðsynleg rödd innan regnbogans.

Höfundur er formaður BDSM á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×