Sport

Bað kærastann sinn af­sökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sha'Carri Richardson er ríkjandi heimsmeistari í 100 metra hlaupi kvenna en var handtekin fyrir að ráðast á kærastann sinn.
Sha'Carri Richardson er ríkjandi heimsmeistari í 100 metra hlaupi kvenna en var handtekin fyrir að ráðast á kærastann sinn. EPA/OLIVIER HOSLET

Hlaupastjarnan Sha'Carri Richardson hefur tjáð sig í fyrsta sinn um handtöku sína á dögunum þegar hún var tekin föst fyrir að ráðast á kærastann sinn á flugvelli.

Richardson birti myndband þar sem hún bað kærastann sinn afsökunar. Hún sagðist þar hafa komið sér í óheppilegar aðstæður.

Hún birti líka afsökunarbréf til kærasta síns, Christian Coleman, á samfélagsmiðlum.

„Ég elska hann og get ekki beðist afsökunar nógu oft,“ skrifaði Sha'Carri Richardson, allt í hástöfum. Hún bætti við að afsökunarbeiðni hennar ætti að vera jafnhávær og framkoma hennar. Guardian segir frá.

„Mér þykir þetta svo leitt“

„Til Christians. Ég elska þig og mér þykir þetta svo leitt,“ skrifaði Richardson og sagði að hann hafi komið inn í líf hennar og sýnt henni hvað það er að elska, eitthvað sem hún hafði ekki kynnst áður á ævi sinni.

Hún lofar líka að leita sér hjálpar til að hafa meiri stjórn á skapi sínu.

Richardson er ríkjandi heimsmeistari kvenna í 100 metra hlaupi og fékk boð á heimsmeistaramótið í haust sem slíkur.

Hún var handtekin 27. júlí síðast liðinn fyrir heimilisofbeldi eftir að hafa ráðist á Coleman þegar þau voru að ferðast í gegnum Seattle-Tacoma alþjóðaflugvöllinn. Hún þurfti í framhaldinu að dúsa í fangelsi í meira en átján klukkutíma.

Nokkrum dögum síðar hljóp hún 200 metra hlaup á bandaríska meistaramótinu en tókst ekki að vinna sér þátttökurétt í því á heimsmeistaramótinu.

Kærastinn líka heimsmeistari

Kærasti hennar Coleman er líka heimsmeistari í 100 metra hlaupi síðan á mótinu árið 2019.

Samkvæmt lýsingu lögreglunnar þá reif Richardson í bakpoka Coleman og henti honum í burtu. Hún reyndi siðan að standa í vegi fyrir Coleman og endaði síðan á því að hrinda honum á vegg þegar hann reyndi að komast framhjá henni. Hún reyndi líka að henda einhverju í Coleman sem menn töldu að hafi verið heyrnartól.

Coleman vildi ekki kæra og ekki bera vitni gegn kærustu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×