Fótbolti

Brynjólfur tryggði dramatískan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Brynjólfur fagnar marki sínu í kvöld.
Brynjólfur fagnar marki sínu í kvöld. ANP via Getty Images

Brynjólfur Willumsson skoraði bæði mörk Groningen er liðið vann dramatískan 2-1 sigur gegn Heerenveen í hollensku deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Brynjólfur jafnaði metin fyrir Groningen með marki á 29. mínútu eftir undirbúning frá Stije Resink, en Daninn Jakob Trenskow hafði komið gestunum í Heerenveen yfir tæpum stundarfjórðungi áður.

Þrátt fyrir nokkur ákjósanleg færi á báða bóga það sem eftir lifði leiks virtist hvorugu liðinu ætla að takast að finna netmöskvana á ný.

Það er alveg þar til á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar Brynjólfur var aftur á ferðinni og tryggði Groningen dramatískan 2-1 sigur.

Þetta var fyrsti sigur Brynjólfs og félaga á tímabilinu, en liðið mátti þola 4-1 tap gegn AZ Alkmaar í fyrstu umferð deildarinnar. Heerenveen hefur hins vegar gert eitt jafntefli og nú tapað einum leik í upphafi tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×