Fótbolti

Hákon skoraði í fyrsta leiknum í treyju númer tíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson skoraði í fyrsta leik Lille á tímabilinu.
Hákon Arnar Haraldsson skoraði í fyrsta leik Lille á tímabilinu. getty/Hesham Elsherif

Íslenski landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson byrjar tímabilið af krafti en hann skoraði eitt marka Lille í 3-3 jafntefli gegn Brest í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Hákon skipti á dögunum yfir í treyju númer tíu og hann kann greinilega vel við sig í henni því hann skoraði annað mark Lille í leiknum í dag. Skagamaðurinn stal þá boltanum af varnarmanni Brest, brunaði að marki heimamanna og skoraði.

Hann kom Lille þá í 0-2 en gamla brýnið Olivier Giroud hafði komið liðinu yfir á 11. mínútu.

Kamory Doumbia minnkaði muninn í 1-2 á 34. mínútu og jafnaði svo metin í upphafi seinni hálfleiks.

Ngalayel Mukau kom Lille aftur yfir á 66. mínútu en níu mínútum síðar jafnaði Julien Le Cardinal fyrir Brest og þar við sat. Lokatölur 3-3.

Hákon hefur nú skorað fjórtán mörk fyrir Lille í 77 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×