Enski boltinn

Saliba við Hjör­var: „Ekki víti og ég hafði engar á­hyggjur“

Sindri Sverrisson skrifar
Hjörvar Hafliðason ræddi við William Saliba á Old Trafford í dag.
Hjörvar Hafliðason ræddi við William Saliba á Old Trafford í dag. Sýn Sport

William Saliba, miðvörður Arsenal, viðurkenndi í samtali við Hjörvar Hafliðason að liðið ætti mjög mikið inni þrátt fyrir að það næði að landa 1-0 sigri gegn Manchester United í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Um var að ræða stórleik umferðarinnar á Sýn Sport og voru þeir Hjörvar Hafliðason og Albert Brynjar Ingason á Old Trafford í dag þar sem Hjörvar ræddi svo við þá Saliba og Bruno Fernandes eftir leik.

„Við komum hingað til að vinna. Það var auðvitað ekki allt fullkomið og við vitum að við getum gert mikið betur, en þegar allt kemur til alls þá voru stigin þrjú það mikilvægasta í dag. Við vinnum að því að verða betri í næstu viku,“ sagði Saliba við Hjörvar en viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Viðtal Hjörvars við Saliba

Spurður út í sigurmarkið, sem kom eftir hornspyrnu á 13. mínútu, og hvort hann hefði óttast að það yrði dæmt af eftir skoðun á myndbandi svaraði Saliba:

„Nei, ég hafði engar áhyggjur. Mér fannst þetta ekki brot og dómarinn var góður. Hann tók rétta ákvörðun. Ég var ekkert órólegur, ég vissi að þetta yrði mark.“

Spánverjinn David Raya stóð fyrir sínu í marki Arsenal:

„Hann bjargaði okkur oft í dag. Hann hélt einbeitingu. Við fengum á okkur ansi mörg færi. Svo er það endurkoma Gabriel. Hann var einnig rosalega góður. Öll varnarlínan var góð, líka þeir tveir sem komu inn í seinni hálfleik og hjálpuðu okkur að halda hreinu í dag,“ sagði Saliba.

United-menn vildu fá vítaspyrnu þegar þeir töldu Saliba hafa brotið á Matheus Cunha í seinni hálfleiknum en var það brot?

„Nei, láttu ekki svona. Þetta var ekki víti. Það er nóg af fólki í VAR-herberginu sem getur tékkað á svona og það sagði ekki neitt. Þetta var ekki víti og ég hafði engar áhyggjur af því,“ sagði Saliba léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×