Fótbolti

Vara­maðurinn reddaði málunum fyrir Frey í blá­lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Alexandersson er þegar búinn að tryggja Brann sæti í riðlakeppni en spurningin er bara hvort það verði riðlakeppni Evrópudeildar eða riðlakeppni Sambandsdeildar.
Freyr Alexandersson er þegar búinn að tryggja Brann sæti í riðlakeppni en spurningin er bara hvort það verði riðlakeppni Evrópudeildar eða riðlakeppni Sambandsdeildar. EPA/Paul S. Amundsen

Íslendingaliðin Malmö FF frá Svíþjóð og Brann frá Noregi voru bæði í eldlínunni í kvöld í fyrri leik sínum í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Þau unnu bæði heimasigra en misstóra. Malmö FF vann öruggan 3-0 sigur á Brann tryggði sér 2-1 sigur í uppbótatíma.

Malmö FF vann 3-0 heimasigur á tékkneska félaginu Sigma Olomouc en tvö fyrstu mörk sænska liðsins komu í fyrri hálfleiknum.

Daníel Tristan Guðjohnsen byrjaði í framlínunni við hlið Sead Haksabanovic sem skoraði tvívegis í fyrri hálfleiknum.

Daníel Tristan var tekinn af velli á 74. mínútu áður en Lasse Berg Johnsen tryggði liðinu 3-0 sigur í blálokin með marki úr vítaspyrnu. Arnór Sigurðsson spilaði síðustu fjórar mínutur leiksins og svo uppbótatímann.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Brann náðu ekki alveg eins góðum úrslitum en tókst samt að skora sigurmark í blálokin og tryggja sér 2-1 AEK Larnaca frá Kýpur.

Kýpverjarnir komust yfir á sextándu mínútu en Felix Horn Myhre jafnaði fyrir Brann aðeins fjórum mínútum síðar.

Eggert Aron Guðmundsson var í byrjunarliði Brann og spilaði allan leikinn.

Freyr sendi Jonas Torsvik inn á sem varmann á 74. mínútu og sú skipting skilaði sér á endanum.

Torsvik var hetja Brann þegar hann skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu í uppbótatíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×