Innlent

Lög­regla kölluð til vegna ein­stak­linga sem tjölduðu í skógar­rjóðri

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti, eins og svo oft áður á næturvaktinni, útkalli þar sem vísa þurfti ölvuðum einstakling út af stigagangi.
Lögregla sinnti, eins og svo oft áður á næturvaktinni, útkalli þar sem vísa þurfti ölvuðum einstakling út af stigagangi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór á vettvang eftir að tilkynnt var um einstaklinga sem höfðu tjaldað í skógarrjóðri en viðkomandi voru vinsamlegast beðnir um að færa sig á tjaldsvæði.

Þá sinnti lögregla nokkrum hávaðatilkynningum í gærkvöldi og nótt, meðal annars á skemmtistað og í heimahúsi en í báðum tilvikum virðist hafa verið um að ræða læti í tækjum, þar sem viðkomandi voru beðnir um að lækka.

Lögregla þurfti einnig að biðja vinnumenn sem stóðu í framkvæmdum að hætta þeim í bili, þar sem komið var fram yfir leyfilegan framkvæmdatíma.

Ein tilkynning barst um slagsmál, þar sem brotaþoli er sagður hafa náð að hlaupa í burtu frá gerendum. Þeir fundust ekki. Þá var tilkynnt um þrjá ölvaða einstaklinga sem voru sagðir vera að sparka í bifreiðar en lögregla bað þá um að hætta og vísaði þeim heim, sem þeir og gerðu.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni, meðal annars fyrir akstur undir áhrifum og fyrir að aka of hratt. Þá var tilkynnt um umferðarslys þar sem tvær bifreiðar skullu saman. Tveir voru fluttir á sjúkrahús en áverkar voru minniháttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×