Körfubolti

Veifuðu eftir dómurunum sem flúðu af vett­vangi: „Eðli­legt að þeir hlaupi í burtu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Strákarnir voru ósáttir við dómgæsluna og ekki síður þegar dómararnir flúðu af vettvangi.
Strákarnir voru ósáttir við dómgæsluna og ekki síður þegar dómararnir flúðu af vettvangi. Vísir/Hulda Margrét

Dómararnir í leik Íslands við Pólland á EM karla í körfubolta tóku ekki í hendur leikmanna eftir hann. Þeir flúðu hreinlega strákana okkar eftir vægast sagt umdeilda dóma í lok leiks.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Katowice

Umdeildar villur í fjórða leikhluta sem féllu Pólverjamegin, á báðum enda vallarins, höfðu gríðarmikið að segja. Það hefur líklega ekki hjálpað til að dómararnir hafi neitað að taka í hendur leikmanna eftir leik og flúið svæðið.

Mikill hiti var í strákunum á viðtalssvæðinu eftir leik og líkti Craig Pedersen, landsliðsþjálfari, þessu við að hjartað hefði verið rifið úr honum. Aðrir töluðu um hversu leiðinlegt það væri fyrir íþróttina að dómararnir ráði úrslitum með þessum hætti, fremur en að leikurinn sé útkljáður á vellinum.

„Það er kannski eðlilegt að þeir hlaupi í burtu,“ sagði Ægir Þór Steinarsson meðal annars við Vísi eftir leik. Viðtal við hann kemur inn í heild innan tíðar.

Viðar Örn Hafsteinsson fór mikinn í viðtali við Karfan.is eftir leik og reiðin var mikil hjá mönnum.

Erfitt er að kyngja þessu tapi eftir að strákarnir sýndu mikinn karakter að koma til baka og ná forystunni í fjórða leikhluta eftir að hafa lent mest 16 stigum undir í þriðja leikhluta. Eftir að strákarnir komust yfir snerist leikurinn á túskildingi þar sem villurnar höfðu mikið að segja.

Leiknum lauk 84-75 fyrir Pólverja sem eru taplausir á toppi riðilsins en strákarnir leita enn fyrsta sigursins á stórmóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×