Innlent

Á­kærður fyrir að bera sig í­trekað

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur mun taka málið fyrir.
Héraðsdómur Reykjavíkur mun taka málið fyrir. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir blygðunarsemisbrot gegn þremur konum og kynferðislega áreitni gegn einni, með því að hafa ýmist sýnt konunum kynferðislegt myndefni, berað sig fyrir þeim eða bæði.

Í ákæru á hendur manninum segir að hann sé ákærður fyrir að hafa að kvöldi ótilgreinds dags stöðvað bifreiðs sína við hlið konu, þar sem hún var á gangi, fengið hana til að nálgast bifreiðina og þegar hún kom að glugga bifreiðarinnar sýnt henni myndband af fólki stunda samfarir. Með háttsemi sinni hafi hann sært blygðunarsemi konunnar og sýnt henni ósiðlegt athæfi.

Hann hafi laust fyrir hádegi annars dags stöðvað bifreiðina við hlið annarrar konu, þar sem hún var á gangi, fengið hana til að nálgast bifreið sína og þegar hún kom að glugga bifreiðarinnar sýnt henni kynferðislegt myndskeið, fróað sér og beðið hana um að hjálpa sér. Hann hafi einnig sært blygðunarkennd þeirrar konu og sýnt henni ósiðlegt athæfi.

Þá hafi hann að kvöldi stöðvað bíl sinn við hlið þriðju konunnar, þar sem hún var á gangi, fengið hana til að nálgast bifreið sína og þegar hún kom að glugga bifreiðarinnar berað kynfæri sín og fróað sér þar til hún hljóp burt. Með því hafi hann sært blygðunarsemi konunnar og sýnt henni ósiðlegt athæfi.

Loks sé hann ákærður fyrir kynferðisbrot, en til vara blygðunarsemisbrot, með því að hafa að nóttu til keyrt við hlið fjórðu konunnar, með opinn glugga á bifreið sinni og kallað til hennar og síðan farið út úr bifreiðinni, berað kynfæri sín og elt hana á meðan hann kallaði til hennar „chupa chupa“. Hann hafi farið aftur inn í bifreiðina, elt konuna með gluggan opinn, farið aftur út úr bifreiðinni með getnaðarlim sinn sýnilegan og elt hana um stund, þrátt fyrir að hún hefði ítrekað beðið hann um að láta sig í friði. Með þessu hafi hann sært blygðunarsemi konunnar, valdið henni miklum ótta og sýnt henni ósiðlegt athæfi.

Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá krefjast konurnar allar að maðurinn verði dæmdur til að greiða þeim miskabætur á bilinu 500 þúsund til 1,5 milljóna króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×