Enski boltinn

Guar­diola fer ó­troðnar slóðir með Donnar­umma milli stanganna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guardiola ræðir við Donnarumma í janúar á þessu ári.
Guardiola ræðir við Donnarumma í janúar á þessu ári. Rico Brouwer/Soccrates/Getty Images

Það var ekki fyrr en löngu eftir að félagaskiptaglugganum var formlega lokað sem fréttir bárust að skipti þeirra Ederson og Gianluigi Donnarumma hefðu farið í gegn. Segja má að um sé að ræða markvarðaskipti sem marki þáttaskil í ferli Pep Guardiola, þjálfara Manhester City.

Það var orðið löngu ljóst að Donnarumma, sem átti hvað stærstan þátt í því að París Saint-Germain stóð uppi sem Evrópumeistari síðasta vor, væri fáanlegur á spottprís. Á sama tíma virtist tími Ederson hjá Man City á enda.

Ederson er nú farinn til Tyrklands og Donnarumma er mættur til Manchester-borgar. Það sem vekur ef til vill hvað mesta athygli er að Donnarumma er í raun andstæðan við James Trafford, markvörð sem City festi kaup á fyrr í sumar.

Á vef BBC, breska ríkisútvarpsins, er samantekt þar sem farið er yfir leikstíl Ederson og svo Donnarumma. Þar segir markvörðurinn fyrrverandi Peter Schmeichel meðal annars að lið hafi hætt að pressa Ederson þar sem hann gat bæði spilað sig út úr pressunni með stuttum, en hnitmiðuðum sendingum, eða einfaldlega með rakettum fram völlinn. Er það ástæðan fyrir því að hann lagði upp sjö mörk á tíma sínum hjá Man City.

Ederson hefur í raun verið hinn fullkomni markvörður fyrir Pep sem gat ekki beðið eftir að losa sig við Joe Hart þegar hann tók fyrst við Man City. Donnarumma er enginn Hart, hann er ljósárum betri. Þessi hávaxni Ítali verður hins vegar seint sagður vera frábær með boltann við fætur sér.

Það vekur því mikla athygli að Man City hafi sótt Ítalann þar sem Trafford, sem er alinn upp hjá félaginu, er talinn með betri markvörðum ensku úrvalsdeildarinnar þegar kemur að því að spila út frá marki.

Það gæti því verið að Guardiola og þjálfarateymi hans þurfi að finna leið til að einfalda uppspil sitt frá markverði til að Donnarumma blómstri. Takist þeim það er aldrei að vita nema City endurtaki leikinn frá því 2023 þegar liðið vann þrennuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×