Skoðun

Að vera séður og heyrður getur bjargað lífi – Gulur septem­ber minnir okkur á að hlúa að hjartanu

Kristín Magdalena Ágústsdóttir skrifar

Þegar uppskriftirnar duga ekki, þurfum við mest á því að halda að vera mætt með alúð, kærleika og nærveru.

Í september minnum við okkur á að mannslíf skiptir máli – öll mannslíf. Gulur september varð til að frumkvæði aðstandenda og fagfólks sem vildu vekja athygli á forvörnum gegn sjálfsvígum. Gulur liturinn var valinn því hann stendur fyrir birtu, hlýju og von – eiginleika sem við þurfum svo sárlega á að halda þegar myrkrið reynir á. Enn í dag er fjöldi þeirra sem fellur frá af eigin hendi alltof mikill og við eigum langt í land að lækka þá tölu.

En til að geta staðið með öðrum þurfum við fyrst að hlúa að okkur sjálfum. Það er ekki sjálfselska heldur forsenda þess að geta elskað aðra. Það sem við segjum okkur sjálfum skiptir máli. Bruce Lipton bendir á að hugmyndir okkar um okkur sjálf virki eins og gleraugu sem móta hvernig við sjáum heiminn – og líkaminn bregst við í samræmi við þær hugmyndir. Þegar við ákveðum að mæta okkur með mildi og trú á eigin gildi, þá erum við að skapa nýjan veruleika. Það er í takt við orð Opru Winfrey sem minnir á að stærsta uppgötvun lífsins sé að við getum mótað framtíð okkar með því einu að breyta afstöðu okkar.

En það getur verið erfitt að breyta sjónarhorni þegar sárin tala. Gabor Maté útskýrir að áfallið sé ekki það sem gerðist, heldur það sem gerist innra með okkur í kjölfarið. Þess vegna er svo mikilvægt að við stoppum í smá stund og hlustum á eigin innri raddir, og mætum þeim með samkennd. Það er í þessu innra rými sem bataferlið hefst.

Þegar við byrjum að tengjast innra lífi okkar á þennan hátt, þurfum við líka verkfæri til að skilja hvað tilfinningarnar okkar eru að reyna að segja okkur. Þar kemur tilfinningagreindin inn. Ég er sammála Daniel Goleman sem segir að tilfinningagreind sé lykillinn að því að skilja og stýra eigin tilfinningum og þar með byggja upp heilbrigð tengsl. Þegar við lærum að vera í tengslum við okkar eigið hjarta, getum við skapað öruggt rými líka fyrir aðra. Herdís Pálsdóttir minnti á að andstæðan við ást væri ekki hatur heldur höfnun. Þegar við höfum ekki tengsl við eigin hjartaþræði, þá erum við í raun að hafna sjálfum okkur.

Það þarf ekki að vera stórt eða flókið að byrja að hlúa að eigin hjarta. Eins og Hanna Hjertaas segir, þá býr í okkur öllum fræ kærleikans sem bíður eftir næringu. Sumum nægir að fara í göngutúr, anda djúpt eða segja við sjálfan sig: „Ég er nóg.“

En fyrir aðra er þetta ekki svo einfalt. Þeir hafa reynt allar „uppskriftirnar“ – göngutúrana, kalda sturturnar og ýmis ráð – án þess að upplifa raunverulega léttir. Þegar mistökin safnast upp og tilfinningin fyrir höfnun verður of stór, þá þora þau ekki að reyna aftur. Fræin sem Hanna talar um verða þá ekki vökvuð, því þeim vantar ekki meiri uppskriftir heldur hlýja nærveru.

Mikilvægast er að sá sem glímir við erfiðleika fái aðstoð og upplifi sig mættan af alúð og kærleika. Það að finna að einhver sér mann og heyrir er stundum það vatn sem fræin þurfa til að geta spírað. Það er mikilvægara en allar uppskriftir sem til eru.

Gulur september er því ekki aðeins mánuður minningar og vitundarvakningar, heldur einnig ákall um að við lærum að elska og virða okkur sjálf. Og það er ekki síst ákall til okkar allra um að mæta hvort öðru með mildi og nærveru. Stundum er öflugasta forvörnin ekki stóra aðgerðin heldur einfalt augnsamband, hlýtt orð eða það að einhver sitji hjá okkur í þögn. Þannig byggjum við samfélag þar sem lífið sjálft er virt að verðleikum.

Spurningar til sjálfsskoðunar

●Hvernig get ég stoppað í smá stund í dag og hlustað á innri raddir mínar?

●Hvað þarf hjartað mitt mest á að halda núna – hvíld, hlýju, tengingu eða eitthvað annað?

●Hvaða orð gæti ég sagt við sjálfan mig í dag sem gefa mér styrk og mýkt?

●Hvaða lítil skref get ég tekið til að vökva fræið mitt af kærleika?

●Er einhver í kringum mig sem ég gæti mætt með hlýju og nærveru – jafnvel bara með einu brosi?

Höfundur er tilfinningagreindarþerapisti með diplómu frá EQ Institute í Noregi og menntaður leik- og grunnskólasérkennari. 

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.




Skoðun

Sjá meira


×