Enski boltinn

Ein sú besta gæti snúið aftur eftir 20 mánaða fjar­veru

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Loks að snúa aftur.
Loks að snúa aftur. EPA-EFE/NEIL HALL

Knattspyrnukonan Sam Kerr hefur ekki spilað síðan hún sleit krossband í hné á æfingu í janúar 2024. Hún gæti snúið aftur á völlinn þegar efsta deild kvenna á Englandi hefst síðar í dag, föstudag.

Hin 31 árs gamla Kerr hefur verið hjá Chelsea frá árinu 2020 og verið ein albesta knattspyrnukona heims á þeim tíma.

„Ég er ekki viss hvort hún byrji eða komi inn af bekknum,“ sagði Sonia Bompastor, þjálfari Chelsea, en staðfesti þó að Kerr væri í hópnum sem myndi mæta Manchester City.

„Hún er á góðum stað andlega. Fólk vill sjá hana á vellinum, hún er reynslumikil en hefur verið frá keppni í langan tíma. Við þurfum að sýna þolinmæði. En það er stórt skref fyrir hana að vera í leikmannahópnum,“ sagði Sonia einnig.

Kerr hefur til þessa skorað 58 mörk í 75 deildarleikjum fyrir Chelsea. Þá hefur hún fimm sinnum orðið Englandsmeistari. Það verður þó ekki sagt að Chelsea hafi saknað hennar á síðustu leiktíð þegar liðið stóð uppi sem Englands-, bikar- og deildarbikarmeistari.

Chelsea er hins vegar án Mayra Ramirez, Lucy Bronze og Lauren James í upphafi móts svo endurkoma Kerr gæti vart komið á betri tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×