Skoðun

Austur­land situr eftir þrátt fyrir fjórðung vöruút­flutnings­tekna

Berglind Harpa Svavarsdóttir skrifar

Á Austurlandi búa aðeins um 2,9% þjóðarinnar en niðurstöður greiningar Analytica á efnahagsumsvifum Austurlands frá árinu 2023 sýna glögglega að landshlutinn stendur undir um 23% vöruútflutningstekna Íslands.

Þrátt fyrir þetta framlag hefur fjárfesting í innviðum setið á hakanum og ógnar þannig frekari verðmætasköpun. Vegir og brýr eru veikburða, fyrirtæki neyðast til að brenna olíu þrátt fyrir mikla orkuframleiðslu svæðisins og fjármunir sem skráðir eru inn á svokallað „Austursvæði“ Samgönguáætlunar renna að stærstum hluta í framkvæmdir í suðurkjördæmi. Einnig má bæta við að af 3 milljarða króna aukaframlagi í vegagerð sem afgreitt var af Alþingi síðastliðið sumar komu einungis 90 milljónir inn á Austurland.

Ný Atvinnustefna í mótun

Áform um nýja atvinnustefnu Íslands var kynnt á Hilton í gær. Áhersla er á að byggja undir alhliða verðmætasköpun atvinnulífssins sem mun auka jákvæðan hagvöxt Íslands. Innviðaskuldin sem Austurland glímir við ógnar hins vegar áframhaldandi verðmætasköpun svæðisins, um fjórðungi vöruútflutningstekna Íslands. Ljóst er að brýnt er að fjárfesta í Austurlandi til að tryggja núverandi vöruútflutningstekjur svæðisins og efla þær enn frekar.

Hlutur Austurlands í orkuöryggi Íslands

Þjóðaröryggi á heimsvísu er nú beintengt orkuöryggi. Hlutur Austurlands í að tryggja orkuöryggi þjóðarinnar er stór, um 30% raforkuframleiðsla landsins sem er mikilvæg til að knýja stóran hluta verðmætasköpunar svæðisins og þá eru ótalin gríðarleg tækifæri til frekari orkuframleiðslu. Austurland er einnig laust við jarðhræringar sem gerir landshlutann sérstaklega mikilvægan í þessu samhengi.

Forgangsmál Austurlands eru skýr í Svæðisskipulagi Austurlands 2022–2044

  • Hringtenging Austurlands með jarðgöngum til að mynda eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Fyrsti áfanginn, Fjarðarheiðargöng eru tilbúin til útboðs.
  • Uppbygging Suðurfjarðarvegar og ný brú yfir Sléttuá til að tryggja örugga þungaflutninga.
  • Heilsársvegur yfir Öxi sem styttir leið um 70 km.
  • Uppbygging Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvallar til að tryggja flugöryggi hér á landi samkvæmt Flugstefnu Íslands, sem samþykkt var á Alþingi 2020.

Fjárfesting í Austurlandi með öflugri fjárfestingu í samgönguinnviðum og að Alþingi tryggi einnig sanngjarna hlutdeild tekna af orkuvinnslu getur Alþingi með auðveldum hætti tryggt að Austurland verði áfram ein af verðmætavélum landsins og samhliða tryggt orkuöryggi þjóðarinnar.

Höfundur er formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×