Sport

Inn­brot í Kaplakrika: „Tóku peningahirsluna og brutu hana upp“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Krossviðarplötu hefur verið komið fyrir í stað rúðu í Kaplakrika.
Krossviðarplötu hefur verið komið fyrir í stað rúðu í Kaplakrika. FH

Brotist var inn í Kaplakrika, íþróttahús FH í Hafnarfirði. Rúða var brotin til að komast inn á skrifstofu knattspyrnudeildar og peningaskápur spenntur upp, sem geymdi þó lítil verðmæti að sögn félagsins.

„Ekki það að við séum að geyma einhverjar milljónir í þessu en það voru gjafabréf og einhver peningur jú. Hann var brotinn upp en ég held að við höfum sloppið svona þokkalega frá þessu þannig séð. Miðað við það sem við vitum núna“ segir Garðar Ingi Leifsson, sölu- og markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH í samtali við Vísi.

Þjófarnir hafa gengið bara beint í peningaskápinn?

„Já í rauninni. Brjóta rúðuna inn á skrifstofu knattspyrnudeildar, fara þaðan og skemma alveg eitthvað líka. Tóku peningahirsluna og brutu hana upp, sóttu eitthvað þangað, svo eru einhverjar flöskur þarna og glerið fór út um allt. En við erum ekki búin að fara alveg yfir hvort það vanti eitthvað meira.“

Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu og bíður frekari rannsóknar.

Þjófarnir tóku hins vegar ekki með sér mikil verðmæti sem finna má á skrifstofu knattspyrnudeildar, leikbók þjálfarans Heimis Guðjónssonar. Þjálfarar kvennaliðsins, Guðni og Hlynur, passa líka vel upp á sínar bækur og taka þær alltaf með sér heim.

„Það er nú fyrir öllu, að þær fari ekki að leka. Sérstaklega fyrir svona stóra leiki á morgun og sunnudaginn“ sagði Garðar.

Því miður hvarf hins vegar uppskriftarbók Sigga Hall, eins og FH greindi frá á Facebook síðu sinni.

Tilkynning sem birtist á Facebook síðunni FHingar. FHingar
FH



Fleiri fréttir

Sjá meira


×