Fótbolti

Fyrsta mark Ísaks í efstu deild Þýska­lands

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar markinu fallega sem hann skoraði í dag. Hans fyrsta mark í efstu deild Þýskalands.
Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar markinu fallega sem hann skoraði í dag. Hans fyrsta mark í efstu deild Þýskalands. Getty/Stuart Franklin

Ísak Bergmann Jóhannesson virtist ætla að reynast hetja Kölnar í dag, í efstu deild Þýskalands í fótbolta, með jöfnunarmarki gegn Wolfsburg í uppbótartíma. Hann jafnaði metin í 2-2 en leiknum lauk með 3-3 jafntefli.

Ísak kom inn á sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks í dag, eftir að hafa spilað landsleikina tvo með Íslandi gegn Aserbaísjan og Frakklandi.

Eftir að hafa skorað tvö mörk gegn Aserbaísjan skoraði Ísak einnig í dag og jafnaði metin, eftir að Wolfsburg hafði komist í 2-1 á 65. mínútu. Hann skoraði með hnitmiðuðu, viðstöðulausu skoti við mikinn fögnuð, á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Þá var hins vegar enn tími fyrir Maximilian Arnold til að koma Wolfsburg aftur yfir seint í uppbótartímanum, og Jakub Kamiński jafnaði svo metin á ný fyrir Köln.

Mark Ísaks var hans fyrsta í efstu deild Þýskalands, eftir komuna frá 2. deildarliði Fortuna Düsseldorf í sumar, og annað markið sem hann skorar fyrir Köln því áður skoraði hann sigurmark í bikarleik gegn Regensburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×