Erlent

Trump fær konung­legar mót­tökur í Bret­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þetta er önnur opinber heimsókn Trump til Bretlands þar sem hann fær konunglegar móttökur en Elísabet II tók á móti honum árið 2019.
Þetta er önnur opinber heimsókn Trump til Bretlands þar sem hann fær konunglegar móttökur en Elísabet II tók á móti honum árið 2019. Getty/Anna Moneymaker

Donald Trump Bandaríkjaforseti og eiginkona hans, Melania Trump, lentu á Stansted-flugvelli í Lundúnum í gærkvöldi en í dag hefst tveggja daga opinber heimsókn forsetans til Bretlands.

Hreyfingin Stop Trump Coalition mótmælti við Windsor í gær og hefur boðað til annarra mótmæla í miðborg Lundúna í dag. Þá voru fjórir handteknir eftir að mynd af Trump og kynferðisbrotamanninum Jeffrey Epstein var varpað á Windsor-kastala.

Trump mun meðal annars hitta Karl III Bretakonung.

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt heimsókn Trump en í aðendri grein í Guardian segir hann fáa hafa gert meira til að ala á pólitískri sundrung út um allan heim. Beiting hersins í borgum Bandaríkjanna sé beint úr „spilabók“ alræðisherra.

Khan segist skilja praktískar ástæður þess að viðhalda góðu sambandi við Bandaríkin en að breskir ráðamenn ættu ekki að veigra sér við því að gagnrýna Trump. Samband Bretlands og Bandaríkjanna hefði enda meðal annars byggt á opnum samskiptum.

Karl og Kamilla drottning munu taka á móti forsetahjónunum við Windsor-kastala í dag. Hleypt verður af byssum þegar Karl og Trump takast í hendur og þá munu þeir virða fyrir sér stærsta heiðursvörð sem saman hefur komið í opinberri heimsókn, alls um 1.300 hermenn og 120 hestar.

Trump mun síðan ferðast með konunginum í hestvagni að kastalanum.

Forsetinn mun funda með forsætisráðherranum Keir Starmer á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×