Erlent

Cruz sagði hótanir Carr líkt og frá mafíósa í Goodfellas

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ted Cruz er til vinstri og Brendan Carr til hægri. Á milli þeirra er auglýsing fyrir kvikmyndina Goodfellas.
Ted Cruz er til vinstri og Brendan Carr til hægri. Á milli þeirra er auglýsing fyrir kvikmyndina Goodfellas. Samsett

Öldungadeildaþingmaðurinn Ted Cruz, Repúblikani frá Texas, líkti hótunum Brendan Carr, forstjóra Fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna (FCC), um að afturkalla útvarpsleyfi ABC-stöðva vegna ummæla spjallþáttastjórnandans Jimmy Kimmel, við taktík skipulagðra glæpaforingja, mafíósa, í kvikmyndinni Goodfellas frá árinu 1990.

„Jimmy Kimmel hefur verið rekinn. Hann hefur verið settur í ótímabundið leyfi. Mér finnst það frábært,“ sagði Cruz í upphafi hlaðvarps síns Verdict with Ted Cruz. Þrátt fyrir það sagði hann vandamál þessu tengt sem snúi að fyrsta ákvæði stjórnarskrárinnar sem fjallar um tjáningarfrelsi.

Forsvarsmenn Disney og sjónvarpsstöðvarinnar ABC, sem er í eigu Disney, tóku þá ákvörðun í vikunni að hætta að sýna þátt Jimmys Kimmel um óákveðinn tíma. Var það gert eftir að yfirmaður Fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna (FCC), gaf til kynna að útsendingaleyfi gæti verið tekið af sjónvarpsstöðvum sem sýna þættina.

Cruz, sem áður var harður andstæðingur Donalds Trump en er nú einn helsti stuðningsmaður hans, sagði að ummæli Carr væru „ótrúlega hættuleg“ og varaði við að því að afskipti stjórnvalda og tilraun þeirra til að stjórna tjáningarfrelsinu í dag gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir þau komist Demókratar aftur til valda.

Sjá einnig: Þáttur Kimmel af sjónvarps­skjánum um óákveðinn tíma

„Hann hótar berum orðum: „Við ætlum að ógilda útvarpsleyfi ABC. Við ætlum að taka hann af skjánum svo ABC geti ekki sent út lengur.“ ... Hann segir: „Það er hægt að gera þetta með auðveldum hætti, eða við getum þetta á erfiðan hátt“. Og ég verð að segja, þetta kemur beint úr Goodfellas. Þetta er alveg eins og ef mafíuforingi gengur inn á bar og segir: „Flottur bar sem þú rekur. Það væri synd ef eitthvað kæmi fyrir hann“,“ sagði Cruz í hlaðvarpinu um hótanir Carr.

Gæti endað illa

Cruz sagði enn fremur að hann „hataði“ það sem Jimmy Kimmel sagði um Charlie Kirk í þætti sínum og að hann væri ánægður að hann hefði verið rekinn en bætti þó við að ef stjórnvöld ætli að skipta sér af því sem fjölmiðlar segi og banna ákveðna fjölmiðlamenn eða miðla frá því að senda út gæti það endað illa fyrir íhaldsmenn.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gaf ekki mikið fyrir ummæli Cruz þegar hann var spurður um þau á fundi í Hvíta húsinu í gær. Hann sagði að sjónvarpsstöðvar væru hugsanlega að misnota leyfi sitt til að senda út og birta gagnrýni um hann.

„Þegar þú ert með sjónvarpsstöðvar sem gefa einhverjum 97 prósent neikvæða umfjöllun þá held ég að það sé óheiðarlegt,“ sagði Trump og að hans mati væri Carr föðurlandsvinur og hugrakkur maður. Hann sagðist vera ósammála Cruz í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×