Sport

Evrópa leiðir bar­áttuna um Ryder bikarinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
„Fleetwood Mac“ tvíeykið minnti á sig í morgun en McIlroy var ekki sá sami án Fleetwood. 
„Fleetwood Mac“ tvíeykið minnti á sig í morgun en McIlroy var ekki sá sami án Fleetwood.  Jared C. Tilton/Getty Images

Fyrsti dagur Ryder bikarsins endaði á jákvæðum nótum fyrir Bandaríkin eftir erfiðleika framan af. Staðan er þó 2.5 - 5.5 fyrir Evrópu eftir fyrstu átta viðureignirnar.

Evrópa var 3-1 yfir eftir fyrri fjórar keppnirnar í morgun. Xander Schaufelle og Patrick Cantlay björguðu stigi fyrir Bandaríkin í síðustu viðureigninni en Evrópa hafði sýnt mikla yfirburði fram að því og spilamennska „Fleetwood Mac“ heillaði hvað mest.

Tommy Fleetwood og Rory McIlroy rifjuðu upp taktana sem þeir sýndu í Róm fyrir tveimur árum, þegar Fleetwood setti sigurpúttið, og spiluðu frábærlega í fjórmenningskeppninni í morgun.

Bandaríkjaforsetinn Donald Trump mætti svo á svæðið til að hvetja Bandaríkin til sigurs, við mikla hrifningu áhorfenda, og sagði sínum mönnum að gefast ekki upp.

Skilaboð forsetans virðast hafa virkað því Bandaríkin byrjuðu sterkt og náðu á endanum hálfu stigi meira í seinni hlutanum.

Justin Thomas og Cameron Young tryggðu stig fyrir Bandaríkin áður en Evrópa tók næstu tvö stig.

Síðasta stiginu skiptu liðin svo á milli sín þegar Rory McIlroy klikkaði á pútti til sigurs, greinilega ekki með sama sjálfstraust án þess að hafa Tommy Fleetwood sér við hlið.

Sjaldgæf feilnóta slegin þar og dagurinn endaði því á jákvæðum nótum fyrir Bandaríkin.

Keppni hefst aftur á morgun og þar verður spilað með sama fyrirkomulagi og í dag, fjórar viðureignir í fjórmenningi og fjórar viðureignir í betri bolta.

Keppni hefst aftur á morgun klukkan 11:00 í beinni útsendingu á Sýn Sport 4.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×