Enski boltinn

Enskir skoruðu mörkin í Bítla­borginni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bowen kom Hömrunum til bjargar.
Bowen kom Hömrunum til bjargar. EPA/VINCE MIGNOTT

Tvö mörk litu dagsins ljós þegar Everton og West Ham United gerðu jafntefli í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta. Markaskorarar kvöldsins eru báðir enskir.

Hamrarnir frá Lundúnum mættu til leiks með nýjan þjálfara en Graham Potter var á dögunum látinn fara. Nuno Espírito Santo tók við starfinu og var í kvöld að stýra Hömrunum í fyrsta sinn.

Það blés ekki byrlega fyrir Santo sem er þekktur fyrir að vilja spila þéttan varnarleik. Þegar 18 mínútur voru á klukkunni tók James Garner hornspyrnu, boltinn var skallaður frá en barst á ný til Garner sem slengdi knettinum fyrir markið. Þar var það miðvörðurinn Michael Keane sem stýrði boltanum í netið með höfðinu, óverjandi fyrir Alphonse Areola í marki West Ham.

Kiernan Dewsbury-Hall fékk tækifæri til að tvöfalda forystu heimamanna en tókst ekki ætlunarverk sitt og staðan 1-0 í hálfleik.

Þegar tuttugu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik jöfnuðu gestirnir hins vegar metin. Jarrod Bowen var þá réttur maður á réttum stað og skilaði boltanum í netið. Hann var nálægt því að koma Hömrunum yfir stuttu síðar en Jordan Pickford varði vel í marki heimamanna.

Hvorugt lið bætti við mörkum eftir það og niðurstaðan sanngjarnt 1-1 jafntefli. Everton nú með 8 stig í 9. sæti eftir sex umferðir á meðan West Ham er í 19. sæti með 4 stig.


Tengdar fréttir

Opnar sig um djammið: „Hjálpaði mér ekki“

Jack Grealish, leikmaður Everton, játar að hann hafi getað hagað sér betur utan vallar á tíma hans hjá Manchester City. Hann hefur öðlast nýtt líf í bláum hluta Liverpool-borgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×