Körfubolti

Meistararnir byrja á góðum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tinna Guðrún átti virkilega góðan leik.
Tinna Guðrún átti virkilega góðan leik. Vísir/Jón Gautur

Íslandsmeistarar Hauka unnu 14 stiga sigur á Tindastóli í 1. umferð Bónus deildar kvenna í körfubolta, lokatölur 99-85. Magnaður 3. leikhluti Hauka skilaði sigrinum í hús.

Gestirnir frá Sauðárkróki byrjuðu af krafti og sýndu Íslandsmeisturunum enga virðingu í fyrri hálfleik. Þær héldu ekki bara í við Haukana heldur voru sterkari aðilinn á löngum köflum, staðan í hálfleik 45-50.

Hvað gerðist í 3. leikhluta veit enginn en Haukar virtust hreinlega annað lið, á sama tíma gekk ekkert upp hjá Stólunum. Skoruðu heimakonur 36 stig gegn 12 og lögðu grunninn að sigri kvöldsins. Stólarnir rönkuðu við sér í 4. leikhluta en það var einfaldlega of lítið of seint.

Amandine Justine Toi var stigahæst í liði Hauka með 27 stig ásamt því að gefa 8 stoðsendingar. Krystal-Jade Freeman skoraði 23 stig og tók 10 fráköst. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 21 stig og Þóra Kristín Jónsdóttir 15 stig ásamt því að gefa 5 stoðsendingar og taka jafn mörg fráköst.

Marta Hermida var allt í öllu í liði Tindastóls. Hún skoraði 30 stig, tók 12 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Alejandra Quirante Martinez skoraði 15 stig og gaf 6 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×