Enski boltinn

Pirraður yfir marki undir vegg: „Hann leggst bara í ein­hverja fóstur­stellingu“

Sindri Sverrisson skrifar
Það reyndist lítið gagn í liggjandi Brenden Aaronson þegar Antoine Semenyo mundaði skotfótinn um helgina.
Það reyndist lítið gagn í liggjandi Brenden Aaronson þegar Antoine Semenyo mundaði skotfótinn um helgina. Getty/Alex Dodd

Antoine Semenyo skoraði hálfótrúlegt mark fyrir Bournemouth um síðustu helgi. „Varnarleikur“ Leedsarans Brenden Aaronson pirraði að sjálfsögðu þá sem ekki eru með Semenyo í sínu Fantasy-liði í draumadeildarleik ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Mörkin úr 2-2 jafntefli Leeds og Bournemouth má sjá hér að neðan en það var Semenyo sem kom Bournemouth í 1-0 með skoti beint úr aukaspyrnu, undir varnarvegg Leeds. Fimm stig í sarpinn fyrir þá sem stilla Semenyo upp í sínu Fantasy-liði en ekki fyrir Albert Guðmundsson, annan stjórnenda Fantasýn hlaðvarpsins, sem leyndi ekki pirringi sínum í þætti vikunnar.

„Þetta er örugglega fyrsta aukaspyrnumarkið sem er skorað undir vegginn, síðan menn byrjuðu að leggjast á bakvið vegginn,“ sagði Albert pirraður en hér að neðan er hægt að hlusta á þáttinn. Umræðan um Semenyo-markið hefst eftir hálftíma.

Vonbrigði Alberts beindust að sjálfsögðu að Aaronson:

„Hann er fenginn í það hlutverk hjá Leeds að leggjast á bakvið vegginn en hann leggst bara ekkert á bakvið hann. Hann leggst bara í einhverja fósturstellingu úti á kanti. Semenyo er náttúrulega bara klókur að sjá þetta og neglir undir vegginn. Jú, jú, í einhver skipti ver Darlow þetta en þetta var bara helvíti fast,“ sagði Albert.

Félagi hans, Sindri Kamban, benti á að í Doczone á laugardaginn hefði kenning manna verið sú að Bandaríkjamenn, eins og Aaronson er, skildu einfaldlega ekki leikinn.

„En þegar þú ert gæinn sem er fenginn til þess að leggjast, er það ekki smá niðurlægjandi?“ velti Albert fyrir sér.

„Jú, þetta er einhver svona busavígsla,“ sagði Sindri.

„Hann var alla vega ekki að nenna þessu og þetta varð niðurstaðan,“ sagði Albert.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér að ofan og finna alla þættina með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×