Innlent

Gekk ber­serks­gang og beraði sig

Jón Þór Stefánsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Maður í annarlegu ástandi vegna áfengisneyslu var handtekinn í Breiðholti í gærkvöldi eða nótt. Hann mun hafa valdið eignaspjöllum og síðan berað sig fyrir framan nágranna sína.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í sama hverfi var einnig brotist inn á tannlæknastofu og maður handtekinn fyrir að ráðast á leigubílstjóra.

Þar segir einnig frá því að karl og kona hafi verið handtekin í Hafnarfirði vegna líkamsárásar, og þau nú vistuð í fangaklefa.

Eldur kviknaði í þvottahúsi, eða fatahreinsun, í miðbæ Reykjavíkur. Eldurinn mun hafa verið lítill og vel gengið að slökkva hann.

Í miðbænum var síðan þremur mönnum vísað úr bílastæðahúsi, en þeir eru sagðir hafa verið til vandræða og að angra fólk.

Tveir menn voru til vandræða á veitingastað í hverfi 108. Þegar þeim var flett upp í kerfum lögreglu kom í ljós að annar þeirra væri eftirlýstur og hann því handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×