Enski boltinn

Arnar Gunn­laugs segir gagn­rýn­endur Liver­pool gleyma mann­lega þættinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson er á því að leikmenn Liverpool séu enn að vinna úr áfallinu að missa liðsfélaga sinn í bílslysi.
Arnar Gunnlaugsson er á því að leikmenn Liverpool séu enn að vinna úr áfallinu að missa liðsfélaga sinn í bílslysi. EPA/Jakub Kaczmarczyk/VINCE MIGNOTT

Allir keppast nú við að gagnrýna Liverpool eftir þrjá tapleiki í röð en íslenski landsliðsþjálfarinn segir að leikmenn liðsins séu enn að vinna sig út úr áfalli sumarsins.

Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, kom leikmönnum Liverpool til varnar í Sunnudagsmessunni á Sýn Sport í gær þar sem fjallað var um síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. 

Hann segir menn of fljótir að gleyma áhrifunum frá fráfalli Diogo Jota.

Liverpool tapaði þriðja leiknum í röð á móti Chelsea á laugardaginn og það má nú heyra harða gagnrýni á Englandsmeistarana úr öllum áttum.

Liverpool vann marga leiki á dramatískan hátt í upphafi tímabils en í síðustu tveimur deildarleikjum hefur liðið fengið á sig sigurmark á síðustu sekúndunum. Frammistaða liðsins hefur ekki þótt merkileg í augum margra sérfræðinga.

„Það sem við, sem erum að gagnrýna liðið, erum ekki mikið að tala um, það er þetta fráfall hjá Jota. Það er svaka áfall fyrir klúbbinn og leikmennina,“ sagði Arnar Gunnlaugsson.

„Þegar þeir tapa leikjum þá segjum við bara: Þeir eru bara lélegir. Við gleymum alltaf þessum mannlega þætti. Ég vil meina það, margir örugglega líka og þeir líka. Þetta hefur miklu meiri áhrif en að segja það,“ sagði Arnar.

Sigurbjörn Hreiðarsson, hinn sérfræðingur Sunnudagsmessunnar, tók undir þetta.

„Þú vinnur kannski einhverja leiki en svo byrjar þessi taphrina þar sem þú þarft að vinna þig upp. Þú þarfa mórallinn og liðsandinn að koma inn og þá gæti þetta tikkað inn,“ sagði Sigurbjörn.

Það má sjá þá ræða þetta hér fyrir neðan.

Klippa: Arnar Gunnlagsson ræðir Liverpool og mannlega þáttinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×