Enski boltinn

„Þá er búið að yfir­taka sál fé­lagsins“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amad Diallo var ljósið í myrkrinu hjá Arnari Gunnlaugssyni þegar hann horfði á Manchester United spila um helgina.
Amad Diallo var ljósið í myrkrinu hjá Arnari Gunnlaugssyni þegar hann horfði á Manchester United spila um helgina. EPA/ASH ALLEN

Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, er mikill stuðningsmaður Manchester United og hefur verið það frá unga aldri. Hann ræddi félagið sitt í Sunnudagsmessunni á Sýn Sport í gær.

Manchester United vann reyndar leik sinn um helgina en tímabilið hefur verið mikið basl. 

Fyrir sigurleikinn á móti Sunderland um helgina þá voru margir á því að portúgalski knattspyrnustjórinn Ruben Amorim yrði rekinn ef leikurinn tapaðist. Það fór ekki svo því United lék betur og vann sannfærandi sigur.

Frá því að ég var níu ára

„Ég er búinn að vera hrikalega mikill stuðningsmaður frá því að ég var níu ára. Ég fór að pæla í því af hverju ég væri búinn að missa áhuga á því að horfa á þá spila,“ sagði Arnar.

Klippa: Arnar Gunnlaugs um kantmenn og sál United

„Ef þið hugsið um lið United frá því í gamla daga. Ég hugsa alltaf um kantmenn. Ég hugsa um Giggs, George Best og Ronaldo. Ég sé fyrir mér leikmenn United taka bakvörðinn sinn á og senda hann fyrir,“ sagði Arnar.

„Þess vegna skil ég þetta ekki alveg. [Sir Jim] Ratcliffe er stuðningsmaður United líka og hann tekur inn þennan Amorim gaur. Þetta er sjarmerandi gaur og búinn að gera frábæra hluti með Sporting,“ sagði Arnar en hann er ósáttur við leikkerfi liðsins.

Ekki lengur sama United og ég dýrkaði og dáði

„Með því að láta þetta kerfi yfirtaka United þá er búið að yfirtaka sál félagsins í leiðinni. Sálin er bara farin að mínu mati. Þetta er ekki lengur sama United og ég dýrkaði og dáði í gamla daga,“ sagði Arnar.

„Mér finnst það svo sorglegt. Það er svo mikilvægt að þeir sem stjórna hjá þessum félögum haldi í kúltúrinn hjá félaginu,“ sagði Arnar.

„Ljósið í þessum leik var Amad Diallo á hægri kanti. Hann er að spila hægri bakvörð en hugsar þessa stöðu sem kantmaður. Ef Dalot hefði verið hægri bakvörður þá hefði hann aldrei tekið menn á einn á einn ,“ sagði Arnar.

Það má heyra þetta og meira um mat Arnars á leikstíl United liðsins hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×