Fótbolti

Birta Georgs: Skrítinn leikur og veðrið átti stóran þátt í því

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Agla María Albertsdóttir og Birta Georgsdóttir fagna.
Agla María Albertsdóttir og Birta Georgsdóttir fagna. Vísir/Diego

Þrátt fyrir vindasaman leik sigraði Breiðablik 4-0 gegn Spartak Subotica í Evrópubikar kvenna í fótbolta í kvöld. Birta Georgsdóttir fagnaði framlagi ungra leikmanna í leiknum.

„Við erum þokkalega sáttar og það var mikilvægt að ná inn þriðja og fjórða markinu hérna í lokin. Þar fyrir utan var þetta skrítinn leikur og veðrið spilaði stóran þátt í því. Það var erfitt að halda boltanum og reikna út hvar hann myndi detta. 4-0 sigur er góð byrjun og svo er leikur í næstu viku þar sem við förum út til Serbíu,“ sagði Birta Georgsdóttir, leikmaður Breiðablik, eftir leikinn í kvöld.

Það má búast við allt öðrum leik í Serbíu en veðrið og vindurinn hafði mikil áhrif í kvöld.

„Við vitum að þær eru með gæða leikmenn og að þær geta fært boltann. Það verða aðrar aðstæður úti og þetta verður allt annar leikur. Þær munu þurfa að sækja á okkur ef þær ætla sér áfram. Við erum vanar því að lið pressi á okkur og við getum höndlað það.“

Breiðablik fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í síðustu viku og ljóst er að stemningin í hópnum er frábær.

„Síðasta vika í liðinu er búin að vera mjög skemmtileg. Það koma hér inn ungar stelpur í kvöld sem gera þvílíkt vel. Ása kemur alltaf inn með krafti, Edith leggur upp mark og Sunna Rún skorar. Þessar ungu stelpur eru að standa sig virkilega vel og hópurinn er geggjaður. Það verður gaman fyrir okkur að fara út saman og klára leikinn í næstu viku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×