Körfubolti

Enst lengst með sama lið og tekur nú við Banda­ríkjunum

Sindri Sverrisson skrifar
Erik Spoelstra fær þann heiður að stýra Bandaríkjunum á ÓL á heimavelli 2028.
Erik Spoelstra fær þann heiður að stýra Bandaríkjunum á ÓL á heimavelli 2028. Getty/Carmen Mandato

Erik Spoelstra, þjálfari Miami Heat, fær það hlutskipti að stýra bandaríska karlalandsliðinu í körfubolta fram yfir Ólympíuleikana sem haldnir verða í Bandaríkjunum 2028, í Los Angeles.

ESPN greinir frá því að Spoelstra taki við af Steve Kerr og verði við stjórnvölinn á HM 2027 og ÓL 2028, eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari þegar Bandaríkin unnu Ólympíugullið í París í fyrra.

Bandaríkin hafa fagnað sigri í körfubolta karla á síðustu fimm Ólympíuleikum í röð og alls sautján sinnum. Leikarnir í LA verða fjórðu leikarnir í röð þar sem liðið mætir til leiks með nýjan þjálfara, eftir að Mike Kryzewski var með liðið í Ríó 2016, því næst Grepp Popovich og nú síðast Kerr.

Spoelstra er sá þjálfari í NBA-deildinni sem lengst hefur þjálfað á sama stað. Hann hefur verið aðalþjálfair Miami Heat frá árinu 2008, eftir að hafa áður verið aðstoðarþjálfari liðsins í áratug.

Spoelstra, sem verður 55 ára í næsta mánuði, hefur tvívegis fagnað NBA-meistaratitli sem þjálfari, árin 2012 og 2013, með LeBron James í broddi fylkingar.

ESPN bendir á að lið Bandaríkjanna gæti mætt talsvert endurnýjað til leiks í LA frá því í París. Kevin Durant, sá eini sem fagnað hafi fernum gullverðlaunum í körfubolta karla á Ólympíuleikum, útiloki reyndar ekki að spila 2028. Stephen Curry hafi hins vegar sagt að ÓL í París verði hans einu leikar og LeBron James verði orðinn 43 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×