Körfubolti

Vekur at­hygli fyrir opin­skáa um­ræðu um veikindi sín

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sylvía Rún er mætt aftur í boltann og nýtur sín i botn
Sylvía Rún er mætt aftur í boltann og nýtur sín i botn Vísir/einar

Sylvía Rún Hálfdánardóttir varð að hætta í körfubolta í fimm ár eftir langvarandi andleg veikindi. Hún glímir við þrjáhyggjuröskun en er nú mætt aftur í boltann og spilar með Ármanni í efstu deild.

Sylvía var einn allra efnilegasti leikmaður landsins en árið 2020 hætti hún í íþróttinni sem hún elskar vegna veikinda. Í kjölfarið glímdi hún við töluvert þunglyndi og reyndist sjálfsvinnan bæði erfið og nauðsynleg. Sylvía hefur opnað sig um veikindi sín á samfélagsmiðlinum TikTok og vakið þar mikla athygli.

@silly_ocd

Andleg barátta vs Körfubolti🏀🫠 #ocd #andlegheilsa #ocdísland #íslenskt

♬ Stories 2 - Danilo Stankovic

„Eitthvað kom yfir mig og mig langaði að deila,“ segir Sylvía sem trúir í raun ekki viðbrögðunum.

„Ég hef fengið jákvæð viðbrögð. Fólk að koma og tala um þetta og svoleiðis. Þetta er bara magnað,“ segir Sylvía en veikindin hennar höfðu mikil áhrif á hana í körfuboltanum.

„Ég fæ greiningu þegar ég er sautján ára og ég náði að pína mig áfram í tvö ár. Svo varð ég bara að hætta og snerti ekki körfubolta alveg í fimm ár. Þetta er bara svona stanslaus barátta við sjálfan sig. Eins og ég sem er greind með OCD. Og á þessum tíma fékk ég líka greiningu á að vera með þunglyndi, sem tengist. Ef ég gerði mistök þá náði ég ekkert að tala mig til um það og gat aldrei sagt hluti eins og, þetta kemur bara næst, heldur fór þetta bara yfir í það að ég væri ömurleg og ætti að hætta.“

Gott að geta talað um hlutina

En er ekki góð tilfinning að snúa aftur til baka á völlinn?

„Jú, það er alveg skemmtilegt að geta það. Og gaman að geta líka komið inn í lið þar sem þetta er allt bara mjög opið. Þau vita öll að ég sé að glíma við andleg veikindi. Eins og ég segi, þessi greining, þetta er röskun sem ég er alltaf með. Og svo ótrúlega skemmtilegt að geta komið í lið þar sem talað er um hlutina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×