Íslenski boltinn

Fer frá KA í haust

Valur Páll Eiríksson skrifar
Viðar Örn hefur ekki fundið fjölina fyrir framan markið í sumar.
Viðar Örn hefur ekki fundið fjölina fyrir framan markið í sumar. Vísir/Anton Brink

Viðar Örn Kjartansson mun yfirgefa Bestu deildarlið KA þegar keppnistímabilinu lýkur í haust. Viðar hefur leikið með félaginu í tvö ár.

Viðar Örn samdi við KA fyrir síðustu leiktíð þegar hann sneri heim út atvinnumennsku. Hann hafði leikið meðal annars leikið í Svíþjóð, Noregi, Kína, Ísrael og Rússlandi á árunum 2013 til 2024.

Viðar, sem er 35 ára gamall, skoraði sex mörk fyrir KA í Bestu deildinni í fyrra en hefur gengið brösuglega í ár. Hlutverk hans með liðinu hefur minnkað og hann ekki enn náð að skora á leiktíðinni.

Hann staðfesti við Fótbolti.net í dag að hann yfirgefi félagið þegar tímabilinu lýkur. KA situr í áttunda sæti deildarinnar og berst við ÍBV og ÍA um efsta sæti neðri hlutans. Liðið fær ÍA í heimsókn til Akureyrar um helgina en mætir svo ÍBV í Eyjum í lokaumferðinni um þarnæstu helgi.

Viðar Örn eignaðist á dögunum barn með kærustu sinni, Sylvíu Rós, líkt og greint var frá á Vísi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×