Viðskipti innlent

Brjóti mögu­lega sam­keppnis­lög með því að tjá sig um dóminn

Árni Sæberg skrifar
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Vísir/Arnar

Samkeppniseftirlitið mun taka möguleg samkeppnislagabrot starfsmanna viðskiptabanka í kjölfar dóms Hæstaréttar í Vaxtamálinu svokallaða til alvarlegrar skoðunar. 

Í tilkynningu á vef Samkeppniseftirlitsins segir að í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands í máli Neytendasamtakanna gegn Íslandsbanka hafi sprottið umræða um möguleg áhrif dómsins á vaxtakjör til framtíðar. Í einhverjum tilvikum hafi starfsmenn eða stjórnendur bankanna leitt að því líkur að dómurinn muni leiða til hækkunar vaxta.

„Af þessu tilefni áréttar Samkeppniseftirlitið að gera verður þá kröfu til keppinauta á viðskiptabankamarkaði að þeir taki sjálfstæðar ákvarðanir um vaxtakjör sín. Starfsmenn og stjórnendur viðskiptabanka ættu undir engum kringumstæðum að miðla upplýsingum til keppinauta um fyrirhugaðar eða líklegar breytingar á vaxtakjörum, hvorki opinberlega, á vettvangi hagsmunasamtaka, milliliðalaust, né með öðrum hætti.“

Bannað að miðla upplýsingum í fjölmiðlum

Samkeppnislög banni hvers konar samráð milli fyrirtækja sem hafi það að markmiði eða af því leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða hún takmörkuð. Það geti til dæmis talist til ólögmæts samráðs ef keppinautar ræða saman um væntanlegar verðhækkanir eða miðla upplýsingum um það hver til annars, til dæmis í fjölmiðlum.

Til þess að samkeppni þrífist þurfi fyrirtæki að búa við ákveðna óvissu um það hvernig keppinautarnir hyggist bregðast við utanaðkomandi aðstæðum hverju sinni, svo sem verðhækkunum frá birgjum, ákvörðunum stjórnvalda eða dómsúrlausnum. Í samkeppnisumhverfi leiti fyrirtæki mismunandi leiða til að bjóða vörur eða þjónustu á sem hagstæðustu verði, svo sem að hagræða í rekstri. Búi fyrirtæki hins vegar yfir vitneskju um viðbrögð keppinautanna dragi úr hvötum þeirra til að keppa og halda verði niðri.

Hagsmunasamtök þurfa líka að passa sig

Meðal annars af þessum ástæðum banni samkeppnislög einnig hvers konar samkeppnishindranir af hálfu hagsmunasamtaka fyrirtækja. Undir það bann falli til dæmis upplýsingamiðlun samtaka um væntanlegar hækkanir eða sameiginlegur rökstuðningur þeirra fyrir hækkunum.

Viðurkennt sé að háttsemi af þessu tagi sé sérstaklega skaðleg á fákeppnismörkuðum.

„Fyrirtæki og hagsmunasamtök þeirra mega vænta þess að Samkeppniseftirlitið taki vísbendingar um samkeppnishamlandi háttsemi sem hér er lýst til alvarlegrar athugunar. Brot á samkeppnislögum geta varðað ströngum viðurlögum.“


Tengdar fréttir

Norrænir bankar skoði hvort breyta þurfi skilmálum vegna dómsins

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu segir of snemmt að segja til um hvaða áhrif nýuppkveðinn dómur í vaxtamálinu muni hafa fyrir fjármálakerfið. Hún segir nágrannalönd fylgjast grannt með málinu og banka á Norðurlöndum skoði hvort þeir þurfi að uppfæra skilmála í lánasamningum sínum í takt við regluverk. 

Lífeyrissjóðs-, bíla- og neytendalán gætu líka reynst ólögleg

Dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu hefur fordæmisgildi í sambærilegum málum gegn Arion banka og Landsbankanum að mati lögmanns Neytendasamtakanna. Þá geti dómurinn haft áhrif á fasteignalán lífeyrissjóða, bílalán og önnur neytendalán á svipuðum kjörum.

Ómögu­legt að meta áhrifin á bankana

Már Wolfgang Mixa, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, segir ómögulegt að meta niðurstöðu Hæstaréttar í Vaxtamálinu svokallaða í fljótu bragði. Fjárhagsleg áhrif á bankana séu hugsanlega ekki eins mikil og talið var mögulegt áður. Í framhaldinu þurfi fjármálastofnanir að hafa mun skýrari vaxtaviðmið í lánum með breytilegum vöxtum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×