Körfubolti

Peder­sen með lands­liðið til 2029

Valur Páll Eiríksson skrifar
Craig Pedersen er að stýra íslenska landsliðinu í þriðja sinn á Eurobasket. Hér kallar hann inn skilaboð í leiknum við Belga í dag.
Craig Pedersen er að stýra íslenska landsliðinu í þriðja sinn á Eurobasket. Hér kallar hann inn skilaboð í leiknum við Belga í dag. vísir/Hulda Margrét

KKÍ hefur endurnýjað samning Craigs Pedersen sem landsliðsþjálfara karla í körfubolta til fjögurra ára. Enginn hefur þjálfað íslenskt landslið lengur en Kanadamaðurinn sem stýrði liðinu á EM í haust.

Pedersen tók við landsliðinu árið 2014 og hefur því verið þjálfari þess í ellefu ár. Hann mun hafa stýrt liðinu í fimmtán ár þegar samningur hans, sem er til 2029, rennur út. Pedersen mun vera þjálfari liðsins í næstu tveimur undankeppnum, fyrir HM 2027 og EM 2029.

Greint hafði verið frá því fyrir tæpum mánuði síðan að Pedersen myndi halda áfram með liðið en KKÍ staðfesti tíðindin loks með yfirlýsingu í dag.

Landsliðið tók þátt í EM í fyrsta sinn í átta ár í haust en fór sigurlaust í gegnum mótið eftir svekkjandi töp fyrir Belgíu og Póllandi. Auk þess sem Ísland tapaði fyrir Ísrael, Slóveníu og Frakklandi.

Ísland fór þá í þriðja sinn á EM en Ísland hefur í öll þrjú skiptin komist á lokamót undir stjórn Pedersen, 2015 og 2017 auk mótsins í ár.

Með áframhaldandi ráðningu Craig tryggir KKÍ stöðugleika í þróun landsliðsins á mikilvægum tíma, þar sem næstu ár fela í sér bæði nýliðun og spennandi möguleika á alþjóðlegum vettvangi. segir í yfirlýsingu KKÍ.

Þeir Baldur Þór Ragnarsson og Viðar Örn Hafsteinsson verða áfram aðstoðarmenn Pedersen og voru þeir einnig ráðnir til fjögurra ára.

Eðlilegt skref segir formaðurinn

„Við höfum verið mjög ánægð með störf Craig sem og þjálfaranna sem starfað hafa með honum undanfarið,“ er haft eftir Kristni Albertssyni, formanni KKÍ, í yfirlýsingu sambandsins.

Kristinn Albertsson, formaður KKÍ.Vísir/Sigurjón

„Það var því eðlilegt skref að hann og hans teymi héldi áfram með liðið. Næsta markmið okkar er skýrt en það er að komast upp úr riðlinum sem við erum í núna í undankeppni HM 2027 en til þess þurfum við að vera meðal þriggja efstu liðanna í riðlinum. Með því tryggjum við okkur einnig sæti í undankeppni EuroBasket2029 sem hefst í nóvember 2027 án þess að fara í forkeppni að þeirri undankeppni,“

„Það eru spennandi tímar framundan og mikil tilhlökkun fyrir næstu leikjum bæði hjá körlunum og konunum,“ er haft eftir Kristni enn fremur.

Pedersen stoltur

Pedersen er spenntur fyrir komandi tímum og hyggst taka áfram næstu skref með liðinu.

„Ég er mjög spenntur og ánægður að halda áfram sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins. Liðið hefur sýnt stöðugar framfarir síðustu ár og leikmennirnir hafa verið stöðugt að bæta sig,“ er haft eftir Pedersen í yfirlýsingu KKÍ þar sem hann segir enn fremur:

„Samheldni liðsins og þeirra sem halda utan um liðið er sterk og ég er stoltur að fá að vera partur af þessum hóp áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×