Innlent

Burðar­dýr fengu þungan dóm fyrir kókaín­smygl

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Hin ákærðu játuðu brot sín strax við þingfestingu málsins. 
Hin ákærðu játuðu brot sín strax við þingfestingu málsins.  Vísir/Vilhelm

Karlmaður og kona hafa verið dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir tilraun til þess að smygla rúmlega þremur kílóum af kókaíni til landsins frá Þýskalandi í ágúst. 

Hin dæmdu eru Eduardo Aguilera Del Valle, karlmaður á fertugsaldri, og Maria Estrella Jimenez Barrull, kona á fimmtugsaldri. Þjóðerni þeirra var afmáð í dómi Héraðsdóms Reykjaness en málið var þingfest og dómtekið í dag. 

Þeim var gefið að sök að hafa flutt 3,3 kíló af kókaíni með 66-82 prósent styrkleika til landsins frá Berlín í Þýskalandi um miðjan ágúst þessa árs. Efnin, sem falin voru í ferðatöskum þeirra beggja, væru ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Málsatvik eru ekki rakin nánar í dóminum, svo sem hvar eða hvenær þau voru handtekin og færð í varðhald. 

Við þingfestingu játuðu Del Valle og Jimenez Barrull bæði sök. Af fyrirliggjandi gögnum ályktaði dómurinn að þau hafi ekki verið eigendur efnanna og að þau hafi ekki komið að skipulagningu á sölu og innflutningi þeirra með öðrum hætti en að hafa samþykkt að flytja þau til landsins gegn greiðslu. 

Við ákvörðun refsingar var bæði litið til lítillar hlutdeildar þeirra í málinu og til þess að þau hafi játað sök strax við þingsetningu. 

Sem fyrr segir voru þau dæmd til þriggja ára fangelsisvistar, en til frádráttar þeim refsingum kæmi gæsluvarðhald þeirra frá 17. ágúst síðastliðnum. Þá voru þau dæmd til að sæta upptöku á kókaíninu sem þau komu með til landsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×