Enski boltinn

„Varnar­leikurinn er bara stór­slys“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Gunnlaugsson segir varnarleik Liverpool ekki til útflutnings.
Arnar Gunnlaugsson segir varnarleik Liverpool ekki til útflutnings. Samsett/Vísir/Getty

Lið Liverpool varð um helgina fyrsta Englandsmeistaraliðið í sögunni sem tapar fjórum leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni. Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari karla, segir margt mega betur fara hjá liðinu.

Liverpool-liðið virtist ætla að snúa við blaðinu eftir 5-1 sigur á Eintracht Frankfurt í Meistaradeild Evrópu í miðri síðustu viku og vonaðist eftir fyrsta deildarsigrinum um hríð er það sótti Brentford heim á laugardagskvöldið.

Ekki voru meistararnir sannfærandi þar og töpuðu leiknum 3-2, sem var fjórða deildartap liðsins í röð. Manchester United er komið upp fyrir Liverpool í töflunni sem situr í sjöunda sæti með 15 stig, sama stigafjölda og liðið var með eftir fimm leiki, og er enn með eftir níunda leik mótsins.

Kjartan Atli Kjartansson spurði Arnar Gunnlaugsson í Sunnudagsmessu gærdagsins hvað amaði að hjá enska meistaraliðinu.

„Það er bara varnarleikurinn. Við ræddum Arsenal áðan, allir leikmenn þar verjast, þetta var aðalsmerki Liverpool í fyrra. Varnarleikurinn er bara stórslys. Þeir eru alltof opnir, of opnir með boltann. Enginn er að spá í „hvað ef?“

Klippa: Arnar ekki hrifinn af Liverpool

„Hvíldarvörn er ekki lengur til hjá Liverpool. Þeir eru að reyna að komast upp með það, eins og í byrjun tímabilsins, að skora þrjú ef andstæðingurinn skorar tvö. Það gengur alveg en þá ertu að setja plástra á sárið yfir langt og strangt tímabil. Það er heldur betur að koma í bakið á þeim núna,“ segir Arnar í Messunni.

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir tók undir.

„Það vantar þennan neista í augunum á þeim. Þeir eru sjokkeraðir. Auðvitað hefur mikið verið rætt um það sem gerðist í sumar með Jota. Maður getur ekki sett sig í þau spor,“ sagði Adda.

Liverpool mætir Crystal Palace í enska deildabikarnum á Anfield á miðvikudagskvöld. Næsti deildarleikur er annar kvöldleikur á laugardegi, þar sem Aston Villa heimsækir Anfield á laugardagskvöldið kemur.

Umræðuna má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×