Fótbolti

Albert og Mikael Egill í vondum málum á Ítalíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert í baráttunni við Latuaro Martínez, fyrirliða Inter.
Albert í baráttunni við Latuaro Martínez, fyrirliða Inter. EPA/GIUSEPPE COTTINI

Roma jafnaði Ítalíumeistara Napoli að stigum með 2-1 sigri á Parma í Serie A, efstu deild karla þar í landi. Inter vann þá öruggan sigur á Alberti Guðmundssyni og félögum í Fiorentina. Mikael Egill Ellertsson var í byrjunarliði Genoa sem tapaði enn einum leiknum. Bæði Íslendingaliðin eru í bullandi fallhættu.

Mario Hermoso kom Roma yfir eftir sendingu Paulo Dybala í kvöld. Artem Dovbyk tvöfaldaði forystuna áður en Alessandro Circati minnkaði muninn fyrir Parma.

Roma er nú með 21 stig eftir 9 umferðir líkt og Napoli. Á sama tíma er Parma með sjö stig í 15. sæti.

Albert var í byrjunarliði Fiorentina sem sótti Inter heim. Staðan var markalaus í hálfleik en í þeim síðari settu heimamenn í fimmta gír. 

Hakan Çalhanoğlu kom Inter yfir á 66. mínútu og fimm mínútum síðar hafði Petar Sučić tvöfaldað forystuna. Çalhanoğlu gerði svo endanlega út um leikinn á 88. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Mattia Viti hafði gerst brotlegur og fékk því dæmt á sig víti og nældi í leiðinni í sitt annað gula spjald og var því sendur snemma í sturtu.

Lokatölur 3-0 Inter í vil sem er nú með 18 stig í 3. sæti. Fiorentina og Albert, sem spilaði 63 mínútur, eru í 19. sæti með fjögur stig.

Hinn 23 ára gamli Mikael Egill spilaði allan leikinn þegar Genoa tapaði 0-2 á heimavelli fyrir Cremonese. Genoa er í neðsta sæti með þrjú stig.

Mikael Egill er fastamaður í liði Genoa.EPA/FABIO MURRU

Önnur úrslit

  • Como 2-1 Verona
  • Juventus 3-1 Udinese
  • Bologna 0-0 Torino



Fleiri fréttir

Sjá meira


×