Innlent

Séra Flosi Magnús­son fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Flosi Magnússon var sveitarstjóri á Bíldudal frá 1. desember árið 1986 fram í júní árið 1990.
Flosi Magnússon var sveitarstjóri á Bíldudal frá 1. desember árið 1986 fram í júní árið 1990. Þjóðkirkjan/Vísir/Vilhelm

Séra Flosi Magnússon, fyrrverandi prófastur og sveitarstjóri á Bíldudal, lést á sjúkrahúsi í Lundi í Svíþjóð þann 11. október síðastliðinn.

Frá þessu er greint á vef Þjóðkirkjunnar. Flosi var fæddur í Reykjavík þann 17. ágúst árið 1956 og voru foreldrar hans þau Magnús Örn Tryggvason og Kristjana Valgerður Steinsdóttir.

„Flosi varð stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi árið 1976 og cand. theol. frá Háskóla Íslands árið 1986. Hann stundaði framhaldsnám í kirkjurétti við Lundarháskóla frá september 1992 fram í maí 1995.

Hann var settur sóknarprestur í Bíldudalsprestakalli frá 15. nóvember 1986 og var vígður þann 5. október sama ár. Síðan var hann skipaður sóknarprestur í sama prestakalli frá 1. júní árið 1987.

Hann var í námsleyfi og í þjónustu sænsku kirkjunnar árin 1992-1995. Flosi var skipaður prófastur í Barðastrandarprófastsdæmi frá 1. október 1987.

Hann lét af embætti prests og prófasts þann 9. október árið 1999,“ segir í tilkynningunni.

Sveitarstjóri á Bíldudal

Meðal annarra starfa Flosa má nefna að hann var sveitarstjóri á Bíldudal frá 1. desember árið 1986 fram í júní árið 1990.

Flosi var kvæntur Ragnhildi Jónasdóttur, en þau skildu. Dætur þeirra eru Vala og Lára.

Flosi verður jarðsettur frá dómkirkjunni í Lundi 7. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×