Upp­gjörið: Valur - Grinda­vík 55-90 | Taplausir Grind­víkingar kjöldrógu Val

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ólafur Ólafsson og félagar unnu öruggan sigur í kvöld.
Ólafur Ólafsson og félagar unnu öruggan sigur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Grindavík er enn eina liðið með fullt hús stiga í Bónus-deild karla í körfubolta eftir afar öruggan 35 stiga útisigur gegn Val í kvöld, 55-90.

Gestirnir í Grindavík byrjuðu betur og skoruðu fyrstu fimm stig leiksins. Lengi framan af leik var þó eins og liðin væru að spila æfingaleik því mikið vantaði upp á ákefð og gæði inni á vellinum.

Grindvíkingar voru þó sterkari aðilinn framan af og leiddu með átta stigum að loknum 1. leikhluta, staðan 13-21.

Fyrri hálfleikur litaðist kannski helst af klikkuðum skotum og misnotuðum vítum hjá Valsmönnum. Valsmenn fóru 14 sinnum á vítalínuna í fyrri hálfleik, en settu aðeins niður fimm víti.

Grindvíkingar gengu á lagið og náðu mest tuttugu stiga forskoti fyrir hlé og leiddu með 16 stigum þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 27-43, Grindvíkingum í vil.

Síðari hálfleikur var svo keimlíkur þeim fyrri. Grindvíkingar voru sterkari aðilinn og Valsmönnum virtist á löngum köflum einfaldlega vera fyrirmunað að koma stigum á töfluna.

Gestirnir frá Grindavík juku forskot sitt jafnt og þétt og voru 26 stigum yfir þegar komið var að lokaleikhlutanum.

Í fjórða leikhluta var þetta svo formsatriði fyrir gestina og það sem var mest spennandi var líklega hvort eða hvenær Valsmenn myndu loksins ná að rjúfa 50 stiga múrinn.

Það var að lokum Kári Jónsson sem rauf 50 stiga múrinn þegar um sex og hálf mínúta var eftir af leiknum. Þá voru úrslitin hins vegar svo gott sem löngu ráðin og niðurstaðan varð að lokum 35 stiga sigur Grindvíkinga, 55-90.

Atvik leiksins

Atvik kvöldsins átti sér stað hér rétt áður en leikurinn hófst. DeAndre Kane var skráður í byrjunarlið Grindavíkur, en hann tók ekki þátt í upphitun liðsins var hvergi sjáanlegur þegar um fimm mínútur voru þar til leikurinn átti að hefjast.

Þeir Grindvíkingar sem undirritaður ræddi við sögðu að hann væri fastur í umferð, en Kane mætti hlaupandi inn í sal örfáum mínútum fyrir leik, teigði á í um tvær mínútur og var svo mættur í byrjunarliðið.

Stjörnur og skúrkar

Khalil Shabazz var fremstur meðal jafningja í Grindavíkurliðinu í kvöld með 24 stig, sex fráköst og fjórar stoðsendingar.

Það var þó varnarvinna og varnarleikur Grindvíkinga sem var stjarna kvöldsins. Að halda Valsliðinu í 55 stigum í heilum körfuboltaleik er í raun hálf ótrúlegt.

Skúrkarnir koma hins vegar úr röðum Vals. Þó er kannski erfitt að setja skúrkastimpil á einhverja einstaklinga eftir þessa frammistöðu því liðið í heild sinni var einfaldlega slakt í kvöld. Valsmenn töpuðu 26 boltum í leiknum og voru aðeins með um 31 prósent skotnýtingu.

Dómararnir

Þeir Sigmundur Már, Jón Þór og Eggert Þór þurftu ekki beint að taka stóru ákvarðanirnar í kvöld. Heilt yfir róleg vakt hjá þeim félögum og komust þeir vel frá sínu.

Stemning og umgjörð

Umgjörðin á Hlíðarenda er alltaf til fyrirmyndar og ekkert út á hana að setja í kvöld, frekar en önnur kvöld. Stemningin í N1-höllinni var hins vegar ekki upp á marga fiska. Grindvíkingar voru fámennari í stúkunni en oft áður, en létu þó meira heyra í sér en aðrir gestir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira