Viðskipti innlent

Gervigreindarknúið snjallsiglingarkerfi hlaut Ný­sköpunar­verð­launin

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Frá vinstri: Magnús Þór Jónsson, einn stofnenda Hefring Marine, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, Björn Jónsson, stofnandi Hefring og Karl Birgir BJörnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Hefring.
Frá vinstri: Magnús Þór Jónsson, einn stofnenda Hefring Marine, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, Björn Jónsson, stofnandi Hefring og Karl Birgir BJörnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Hefring. Sigurjón Ragnar

Fyrirtækið Hefring Marine hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands í ár. Fjármálaráðherra afhenti stofnendum fyrirtækisinsverðlaunin við hátíðlega athöfn í dag en fyrirtækið hefur þróað og markaðssett snjallsiglingakerfi sem nýtir rauntímagögn til að bæta öryggi, eldsneytisnýtingu og rekstur báta og smærri skipa.

Í tilkynningu frá Nýsköpunarsjóðnum Kríu, sem veitir verðlaunin auk Íslandsstofu, Hugverkastofu og Rannís, segir að Hefring Marine hafi verið stofnað árið 2018 og hafi á skömmum tíma náð umtalsverðum árangri á alþjóðlegum markaði. Upphaf starfseminnar megi rekja til rannsókna á höggbylgjum og sjólagi í samhengi við siglingarhraða hraðskreiðra ferðaþjónustubáta.

„Þær rannsóknir urðu grunnurinn að þróun á IMAS® (Intelligent Marine Assistance System) snjallsiglingakerfi fyrirtækisins sem nýtir gervigreind og gögn frá ýmsum skynjurum og mælitækjum um borð í bátum og skipum til að birta skipsstjórnendum og flotastjórum rauntímaleiðsögn um fjölmarga þætti sem varða öryggi, eldsneytisnýtingu, viðhald og rekstur. Kerfið nýtist m.a. til að aðlaga siglingarhraða að aðstæðum og sjólagi og koma í veg fyrir högg sem geta valdið alvarlegum slysum, besta eldsneytisnotkun miðað við aðstæður, vakta búnað og fylgjast með bilanaskilaboðum, skilgreina siglingasvæði og ýmislegt annað sem nýtist skipsstjórnendum- og flotastjórum á hverjum tíma,“ segir í tilkynningunni.

Vaxið hratt

Félagið hefur tryggt öfluga hugverkavernd með einkaleyfum í Evrópu og Bandaríkjunum, að því er fram kemur í tilkynningunni, þar á meðal fyrir aðferðir og kerfi til bylgjumælinga og greiningar á höggáhrifum. Starfsemi fyrirtækisins hafi vaxið hratt á undanförnum árum, með stöðugum tekjuvexti og fjölgun starfsmanna, einkum við rannsóknir og þróun.

Fjármálaráðherra afhenti stofnendum verðlaunin í dag.Sigurjón Ragnar

„Fyrirtækið hefur skapað sér traust á erfiðum markaði og kerfi þess er nú notað af björgunaraðilum, sjóherjum, útgerðum, bátaframleiðendum og ferðaþjónustuaðilum um allan heim, þar á meðal í Noregi, Svíþjóð, Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Ítalíu og á Íslandi.“

Efli sjálfbærni og öryggi í siglingum

Dómnefndin taldi Hefring Marine gott dæmi um hvernig íslensk tæknifyrirtæki gætu haslað sér völl innan geira sem áður voru taldir utan sviðs hugverkaiðnaðar. Félagið sé til fyrirmyndar í því hvernig nýta megi fjjölbreytt notkunargögn við þróun nýrrar tækni.

„Kerfið hefur mikið og augljóst hagnýtt gildi, það bætir öryggi, dregur úr eldsneytisnotkun og þar með losun gróðurhúsalofttegunda og eflir þannig sjálfbærni í siglingum. Markhópur fyrirtækisins er vel skilgreindur og það hefur skapað sér traust á erfiðum og tiltölulega lokuðum markaði. Tekjur fyrirtækisins hafa aukist hratt á stuttum tíma og margir samningar eru í farvatninu. Framtíðarsýn þess er skýr og möguleikar á uppskölun mjög góðir. Þá hefur fyrirtækið tryggt mikilvæg hugverkaréttindi á alþjóðlegum vettvangi. Þetta gerir Hefring Marine að efnilegu fyrirmyndarfyrirtæki sem á alla möguleika á að tryggja sér alþjóðlega lykilstöðu innan síns geira,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×